Hómópatía
Hómópatía, stundum kölluð smáskammtalækningar, á það sameiginlegt með flestum óhefðbundnum meðferðarformum að líta svo á, að upphaf veikinda megi rekja til ójafnvægis í lífsorkunni.
Líkaminn er í eðli sínu fær um að lækna sig sjálfur. Hæfileikinn til sjálfsheilunar kemur frá orkulind, sem við köllum lífskraftinn, öðru nafni vital force, lebens kraft, chi eða prana, allt eftir því úr hvaða menningarsamfélagi við komum, en öll erum við sammála um að við höfum þennan kraft. Sjúkdómar geta náð að grafa um sig, þegar orkukerfi okkar er veiklað eða í ójafnvægi einhverra hluta vegna. Einkennin eru viðbrögð við áreiti og álagi og merki um viðleitni líkamans til að ná aftur jafnvægi og heilsu. Heilsa einstaklingsins ræðst því af hæfileikanum til að aðlagast þessu áreiti og álagi. Þetta er ástæða fyrir því að hómópatar lækna ekki fólk, heldur leitast við að koma lífsorkunni í jafnvægi svo manneskjan sjálf geti náð heilsu á sinn eigin hátt.
Upphafsmaður hómópatíu var Samuel Hahnemann (1755-1843) fæddur í Meissen í Þýskalandi. Hann var mikið tungumálaséní og greiddi fyrir nám sitt í læknisfræði og efnafræði með þýðingum. Hann starfaði sem læknir í 9 ár, en þá ákvað hann að hætta og snúa sér að rannsóknum, skriftum og þýðingum. Hahnemann gerði merkar uppgötvanir í rannsóknum sínum. Ein merkilegasta kenningin, sem hann setti fram, er um að efni, sem getur framkallað einkenni hjá heilbrigðum einstaklingi, getur læknað lík einkenni hjá sjúkum manni. Hómópatía byggir á lögmálinu lát líkt læknast með líku eða Simila similibus curentur.
Því er það, að hómópatar nota mikið útþynnt efni, svo mikið að ekki finnst snefill af efninu sem lagt var upp með í útþynningunni sem gefin er. Það má því segja að verið sé að gefa hvata efnisins en ekki efnið sjálft, að verið sé að hvetja til jafnvægis.
Á þessu má sjá, að remedíur (útþynningar) sem hómópatar nota eru hættulausar, möguleiki á ofskömmtun, eitrunum eða aukaverkunum er ekki fyrir hendi. Val á réttri remedíu getur hinsvegar verið vandasamt og er því ekki á færi annarra en fagfólks.
Við hverju má búast í tíma hjá hómópata?
Fyrsta viðtal hjá hómópata getur tekið frá 60-90 mínútum.Viðtalið getur verið mjög áhugavert fyrir einstaklinginn, því spurt er um hluti, sem viðkomandi hefur kannski ekki leitt hugann að, eða veitt sérstaklega athygli. Spurt er mjög nákvæmlega um einkennin, sem eru ástæða komunnar, hvað viðkomandi finnist um þau og hvað hafi áhrif á einkennin. En það er líka spurt mjög ítarlega um önnur einkenni; andleg, tilfinningaleg og líkamleg. Sem dæmi um líklegar spurningar má nefna:
• Hvað hræðir þig?
• Hvernig ertu skapi farin(n)?
• Hvað vekur hjá þér kvíða?
• Hvaða tilfinningar eru ríkjandi hjá þér dagsdaglega?
• Í hvernig landslagi líður þér best?
• Í hvernig veðurfari líður þér best?
• Í hvernig stellingu finnst þér best að sofa?
• Svitnarðu mikið-lítið?
• Ertu heitfeng(ur) þorstlát(ur)?
• Hvað gerir þín einkenni betri eða verri.?
• Hvernig mat langar þig oftast í?
Allar spurningar miða að því að fá sem nákvæmasta mynd af einstaklingnum.
Þess vegna er mjög líklegt að einstaklingar með sömu sjúkdómsgreiningu fái mismunandi meðferð.
Meðferðin er alltaf miðuð við að koma jafnvægi á lífsorkuna.
Aðalsmerki hómópatíunnar, eins og svo margra óhefðbundinna meðferðarforma, er, að hægt sé að stuðla að betri líðan jafnvel þótt einkenni séu ekki vel skilgreind eða falli undir tiltekinn sjúkdóm.
Það að vera ekki alveg eins og maður á að sér, orkan lítil og tilfinningar frekar flatar, er oft merki um að lífsorkan sé í ójafnvægi.
Best er að leitast við að koma á jafnvægi, áður en veikindi ná að grafa um sig. Því má segja, að hægt sé að nota hómópatíu í fyrirbyggjandi tilgangi.
Á sama hátt er hægt að styrkja grunngerð einstaklingsins svo veikleikar nái sér síður á strik, en þá verður viðkomandi að vera vakandi yfir líðan sinni.
Hómópatía getur verið skemmtilegt ferðalag, þar sem einstaklingurinn kynnist veikleikum sínum og styrk.
Ég vil óska svæðmeðferðarfólki innilega til hamingju með 25 ára afmælið og velfarnaðar í framtíðinni.
Dagný E. Einarsdóttir, hómópati. Grein þessi var birt í 25 ára afmælisriti SMFÍ.