Hómópatía – fortíð eða framtíðin?
Þýtt og endursagt: Jóna Ágústa Ragnheiðardóttir hómópati, Skráður græðari.
Á dögunum mátti lesa fréttir af því að aðstandendur brezka læknatímaritsins Lancet teldu remedíur einskis nýtar og hómópatíuna þar með dottna upp fyrir. Þetta er auðvitað vindhögg eins og eftirfarandi grein Söru Eames ber með sér, en greinin birtist í Health and Homeopathy. Við hómópatar getum því heilshugar tekið okkur í munn orð Mark Twain þegar hann tilkynnti að frétt um andlát hans væri stórlega ýkt!
Í hómópatíu eru notuð sömu grundvallarlögmál og margar sömu remedíur og Samuel Hahnemann þróaði fyrir meira en tvö hundruð árum. Þessu er allt öðruvísi farið í hefðbundnum meðferðum, sem hafa tekið algjörum stakkaskiptum frá dögum Hahnemanns. Þá tíðkuðust blóðtökur, notkun blóðsuga og sterkra lyfja, sem við vitum nú að eru eitruð eins og til dæmis kvikasilfur. Enn í dag taka hefðbundnar meðferðir hröðum breytingum.
Þessar andstæður undirstrika mismunandi viðhorf til heilsu og sjúkdóma í hefðbundnum meðferðum og hómópatíu. Hefðbundin vestræn læknisfræði lítur fyrst og fremst á sjúkdómana sem þann óvin sem þurfi að berjast gegn. Fúkalyf eru notuð til þess að granda bakteríum, sterar og bólgueyðandi lyf til þess að bæla vefjaviðbrögð. Róandi lyf til þess að halda aftur af tilfinningalegum viðbrögðum og skurðaðgerðir til þess að fjarlægja sýkta hluta líkamans. Auðvitað geta þessar aðferðir stundum verið nauðsynlegar og bjargað mannslífum. Það er hinsvegar meiriháttar áhyggjuefni að heilsan skuli vera tekin þessum tökum, því meðan reynt er að ráðast að staðbundnum sjúkdómseinkennum beinist lítil athygli að heildarheilsu sjúklingsins og litlum tíma er varið í vangaveltur um það hvers vegna sjúklingurinn verður veikur. Menn hafa líka áhyggjur af aukaverkunum þeirra lyfja sem notuð eru. Satt að segja er nú algengt að ávísað sé á annað lyf, sem á að draga úr aukaverkunum þess fyrra. Til dæmis er vitað að bólgueyðandi lyf valda ertingu í slímhúð magans og þess vegna eru oft gefin samhliða þeim magalyf til þess að fyrirbyggja slímhúðarvandamál. Stefnan liggur til þess að ávísa á vaxandi lyfjafjölda en um leið er það skoðun margra lækna, að sjúklingum sem taka inn fleiri en eitt lyf líði í raun og veru aldrei vel.
Nýleg rannsókn í Bandaríkjunum leiddi í ljós að aukaverkanir frá lyfjanotkun voru í þriðja sæti sem orsök spítalavistar á eftir hjarta- og æðasjúkdómum og krabbameini. Önnur vandræði sem hefðbundnar meðferðir eiga við að glíma er að baráttan við sjúkdómana getur oft reynst tvíbent. Menn finna til dæmis út að bakteríur og vírusar eru ástæður ýmissa sýkinga. Fúkalyf og önnur lyf eru þá þróuð til þess að berjast gegn sýkingunni, en ef þau eru notuð í of miklum mæli getur bakterían orðið ónæm fyrir þeim og þá er nauðsynlegt að þróa ný lyf. Nú er það orðið sérstakt vandamál á spítulum að fást við ofursýkla sem eru ónæmir fyrir fúkalyfjum.
Aðferðafræði hómópatíunnar er með allt öðrum hætti. Hennar kjarni er að líkt læknar líkt. Einkennum sem stórir skammtar af efni valda er hægt að eyða með útþynntum skammti af sama efni. Þegar við skerum hráan lauk, rennur úr augum okkar og nefi. Þess vegna beitir hómópatían remedíu sem unnin er úr lauk, Allium cepa, gegn rennsli úr augum og nefi. Þannig eru einkennin ekki einasta til þess að vinna á, heldur eru þau líka vísbending um það hvaða remedía gagnast til þess.
Hahnemann talaði um lífskraftinn. Þegar maður er heill heilsu er lífskraftur hans í jafnvægi og honum líður vel; er fullur orku og sýnir engin merki um andlega eða líkamlega vanlíðan. Ef einhver einkenni koma í ljós mun vandlega valin remedía sem best svarar til þessara einkenna örva líkamann til þess að komast aftur í jafnvægi og koma viðkomandi til fullrar heilsu. Útþynnt remedían er líkamanum hvati til sjálfsheilunar, frekar en að hún berjist gegn líkamanum. Það er í sjálfu sér merkilegt að fyrir meira en tvö hundruð árum hafði Hahnemann örugga sýn í fræðum sínum um það að remedía væri því aðeins rétt valin að hún breytti almennri heilsu og líðan til hins betra. Það væri ekki nóg að eyða sjúkdómseinkennum, ef orka og líðan héldust óbreytt eða versnuðu.
Hómópatar eru lukkunnar pamfílar að vera þjálfaðir í meðferðarfræði sem með útþynntum remedíum (smáskömmtum) getur ýtt undir heilsu manna án þess að einhverjar aukaverkanir valdi alvarlegum vandamálum. Þessir þýðingarmiklu kostir eiga jafn vel við í byrjun tuttugustu og fyrstu aldarinnar og á átjándu öld í Þýskalandi. Þá var Hahnemann orðinn svo vonsvikinn yfir læknisfræðunum að hann gerði hlé á læknisferli sínum þar til hann hafði þróað sitt hómópatíska kerfi. Hómópötum standa til boða tvenns kona uppsláttarrit; í Materia medica eru upplýsingar um þau einkenni sem hver remedía getur unnið á. Þegar hómópati veltir því fyrir sér hvort hann eigi að gefa ákveðna remedíu getur hann slegið upp í Materia medica til að ganga úr skugga um að hún eigi við öll einkennin. Safnrit (Repertory) er með köflum um hina ýmsu líkamshluta og er í hverjum kafla bæði lýst einkennum og taldar til remedíur, sem vitað er að vinna á þessum einkennum. Þetta eru upplýsingar sem hómópatar allar götur frá Hahnemann hafa safnað saman úr ýmsum áttum.
Hahnemann rannsakaði áhrifin af stórum skömmtum á sjálfum sér, fjölskyldu sinni og starfsbræðrum. Hann skráði vandlega niður einkennin, bæði andleg og líkamleg, sem efnin ollu og notaði síðan remedíur í útþynntu formi til að vinna bug á þessum einkennum. Svona skipulagðar rannsóknir á nýjum efnum eru kallaðar “sannanir” og eru framkvæmdar enn í dag. Þær auka við þann remedíufjölda sem hómópatanum stendur til boða og auka á nákvæmni remedíugjafarinnar. Meðal nýrra remedía eru Hydrogen og Chocolate sem hafa verið þróaðar til hómópatískrar notkunar eftir jákvæðar niðurstöður “sannana”. Nýjar upplýsingar um remedíur fást líka úr rannsóknum í eiturefnafræði. Einkenni sem stafa af eitrunum annaðhvort af völdum skaðlegra efna eða dýra hafa verið sótt til læknisfræðinnar og útþynntar remedíur úr þessum eiturefnum notaðar til að fást við þessi sömu einkenni. Þessi geysimikla vitneskja um remedíurnar og einkennamunstur þeirra gerir hómópatíuna vel úr garði til þess að fást við sjúkdóma framtíðarinnar.
Á kvennadeild Konunglega hómópataspítalans í London koma margir sjúklingar sem þjást af fjölblöðrueggjastokkum (Polycystic ovaries) og legslímhimnuflakki (endometriosis) sem svo nýlega hafa verið uppgötvuð “af læknavísindunum”. Það er í raun makalaust, að þau einkenni sem þessir sjúklingar kvarta um er oft að finna í Repertory, þó þar séu engar vísanir til þeirra nafna sem við höfum gefið þessum sjúkdómum, og að vandlegt val á réttu remedíunni getur létt þessum einkennum af sjúklingunum og hjálpað þeim aftur til góðrar heilsu. Á hverju ári reyna menn að finna ný flensumeðul út frá vísbendingum um það hver verði útbreiddasti flensuvírusinn þann veturinn. Í hómópatíunni eru margar áhrifaríkar flensuremedíur. Það er þess vegna hægt að segja með fullri vissu að hómópatían er þegar búin undir sjúkdóma sem munu koma til sögunnar á þessari öld og getur gegnt þýðingarmiklu hlutverki í því að viðhalda heilsu manna.
Hómópatían á sér þegar frækilega sögu og með áframhaldandi þróun nýrra remedía getur hún orðið æ betri meðferð í framtíðinni.
Grein þessi birtist í vorblaði Heilsuhringsins 2006.