Selen

Selen (selenium)

Hallfríður M Pálsdóttir tók saman

page83_1

Frumefnið selen (Se) er eitt hinna lífsnauðsynlegu snefilsteinefna sem mannslíkaminn þarf á að halda. Selen finnst í litlu magni í öllum vefjum líkamans utan fituvefs. Líkaminn geymir u.þ.b. 20 mg selens. Um helmingur selenlíkamsforða karlmanna er í eistunum og þeim hlutum sáðrása sem næstir eru blöðruhálskirtlinum en mest er af því í hjarta, milta, nýrum og lifur. Selen gegnir mikilvægu hlutverki við ýmis efnaskipti í líkamanum og er nauðsynlegur hluti ensíms sem verndar frumur gegn sindurefnum og  virkar andoxandi, þ.e. kemur í veg fyrir að fita oxist eða þráni. Það eru að minnsta kosti 25 mismunandi selenháð prótein þekkt í líkamanum, sem ganga oftast undir nafninu selenoprótein, en virkni einungis u.þ.b. 14 þeirra er þekkt. Hafa þau meðal annars þýðingu fyrir vöxt, starfsemi ónæmiskerfisins og frjósemi.
Selen er hluti andoxandi ensímsins glutathione peroxidase (fjögur atóm selens eru í hverju mólikúli ensímsins) og hefur sú virkni selens verið hvað mest rannsökuð. Glutathione peroxidase er lítil próteinsameind sem framleidd er í lifur og samanstendur af þremur amínósýrum; cysteine, glutamic acid og glycine.
Það eru til að minnsta kosti fjórar undirtýpur glutathione peroxidase. Það er m.a. í galli, frumuvökva og millifrumuvökva og gerir óvirkt efni sem kallast peroxíð og inniheldur mikið magn súrefnis. Þar sem ofgnótt súrefnis getur valdið eitrunareinkennum í frumum, og þar með skemmdum á vefjum, getur peroxíð ógnað lífsnauðsynlegum himnum og vefjum, sem aftur getur valdið krabbameini og jafnvel dauða. Glutahione perioxidase umbreytir m.a. skaðlegu hydrogen peroxíði í líkamanum í vatn.

E vítamín sem er í frumuhimnum tekur einnig þátt í vörnum gegn peroxíði. Þannig vinna E vítamín og selen saman að vörnum líkamsvefja.
Bæði selen og E vítamín þurfa að vera til staðar til að bæta upp skort á hvort öðru.
Algengt er að selenmagn í blóði sé tiltölulega lágt hjá liðagigtarsjúklingum en það gæti skipt máli þar sem selen er mikilvægt andoxunarefni og samverkandi þáttur sindurefnaeyðandi ensímsins Glutathione peroxidase. Selen er einnig mikilvægt til að draga úr framleiðslu bólguvaldandi prostaglandína og leukotrína, sem eru hópur efna sem valda ofnæmisviðbrögðum í líkamanum en þessi efni, ásamt sindurefnum, eru ábyrg fyrir miklu af þeim skaða sem liðagigt veldur. Ennþá hafa vísindarannsóknir ekki staðfest að selen eitt og sér bæti liðagigt en ásamt E-vítamíni hefur það haft jákvæð áhrif.
Selen er einnig hluti ensímsins thioredoxinreductase sem meðal annars getur umbreytt C vítamíni í það form sem virkar sem þráavarnarefni og vinnur gegn sindurefnum (frjálsum radikölum). Thioredoxinreductase getur einnig umbreytt sykrunni ribosa í deoxy-ribosa sem er nauðsynlegur hluti DNA í litningunum í frumum ónæmiskerfisins.
Glutathione peroxidase er mikilvægt til að fyrirbyggja bólgumyndun í unglingabólum. Rannsóknir hafa sýnt að ensímið er iðulega ekki í nægu magni hjá þeim sem eru illa haldnir af unglingabólum. Eftir inntöku E-vítamíns og selens eykst magn þess með þeim árangri að stórlega dregur úr bólunum.

Glutathione peroxidase vinnur m.a. gegn skaðsemi skordýraeiturs og þungmálma, svo sem kvikasilfurs, arseniks og kadmíums, með því að bindast þeim og mynda óskaðleg málmsambönd. Danskar rannsóknir á Norður Grænlandi sýna að inúítar sem lifa hefðbundnu lífi grænlenskra, virðast ekki skaðast af miklu magni kvikasilfurs sem þeir innbyrða í sjávarfangi þar sem sjávarfangið inniheldur einnig selen sem afeitrar líkamann.

Finnskir vísindamenn framkvæmdu rannsókn þar sem þeir gáfu hluta rannsóknarhópsins 100 mcg af seleni á dag en hinir fengu lyfleysu. Fjórum mánuðum seinna hafði kvikasilfurmagnið í hári þeirra sem fengu selen minkað um 34%, sem sýnir að selen vinnur gegn skaðlegu kvikasilfri í líkamanum.

Sérstakt form glutathione peroxidase ensímsins (Selenoprotein V) er mikilvægt fyrir sæðisfrumumyndun þar sem það verndar gegn litningagalla. Þegar sæðisfruman er fullmynduð skiptir ensímið fosfolipid-hydroperoxid-glutathioneperoxidase um hlutverk og finnst í miðju frumunnar ásamt hvatberunum sem sjá frumunni fyrir orku til að sveifla halanum. Ófrjósemi hefur verið tengd selenskorti.

Selen er einnig, eins og áður segir, nauðsynlegt eðlilegri virkni ónæmiskerfisins og skjaldkirtilsins í formi ensímsins; selenháður iodothyronin-deiodinase, sem kemur við sögu í myndun og virkni skjaldkirtilshormóna, svo sem triiodothyronine eða T3 úr thyroxine eða T4, og hefur m.a.þannig áhrif á efnaskipti, vöxt og þroska, og virkni skjaldkirtilsins.

page83_2

Margar rannsóknir á dýrum benda til þess að selen geti virkað fyrirbyggjandi á krabbamein, næstum óháð því hvaða dýrategund um er að ræða, eða hvers konar krabbamein um er að ræða. Þær hafa gefið til kynna að selenskortur auki vöxt og fjölda krabbameinsæxla þegar komist er í kynni við krabbameinsvaldandi efni. Selen virðist hafa verndandi áhrif í þessum rannsóknum. Leitt er líkum að því að þráavarnaráhrif selens, sem og hlutverk þess í ónæmiskerfinu, komi í veg fyrir að sindurefni skaði DNA og hindri þannig þær stökkbreytingar í genunum sem í versta falli geta leitt til krabbameins. Hins vegar hefur verið erfiðara að sannreyna slík áhrif á fólk því margar rannsóknir sem hafa verið framkvæmdar hafa gefið misvísandi niðurstöður.

Einu beinu sannanirnar um að selen geti komið í veg fyrir krabbamein eru víðtækar faraldsfræðilegar rannsóknir þar sem seleninnihald drykkjarvatns var borið saman við dauðsföll af völdum krabbameina í mismunandi landshlutum Bandaríkjanna, og á milli landa. Þar komu fram eftirfarandi tengsl: Því meira selenmagn því færri tilfelli krabbameins. Aðrir þættir eiga að sjálfsögðu hlut að máli og krabbamein er til staðar á svæðum með háu seleninnihaldi. Það hefur verið áætlað að hættan á því að fá krabbamein sé tvisvar sinnum meiri á svæðum þar sem drykkjarvatn inniheldur lítið selen.
Nýlega voru niðurstöður klínískrar rannsóknar sem framkvæmd var á Vesturlöndum (JAMA 1996;276 1957-1963) svo jákvæðar að áhugi jókst til muna á hlutverki selens í fyrirbyggjandi hlutverki gegn krabbameini (15 kDA selenoprotein (Sep15)).
Í einni rannsókn tóku 1.312 Bandaríkjamenn annað hvort 200 mcg af seleni daglega, eða lyfleysu, í um það bil 5 ár. Af þeim sem tóku selen fengu 63% færri blöðruhálskirtilskrabbamein miðað við samanburðarhópinn, 58% færri tilfelli voru af krabbameini í ristli og endaþarmi og 45% færri fengu lungnakrabbamein.
Í heild fækkaði krabbameinstilfellum um 37% og dauðsföllum af völdum krabbameins fækkaði um 50%.
Niðurstöður annarrar rannsóknar (J Natl Cancer Inst 1995; 87:497-505) benda einnig til þess að selen minnki hættuna á blöðruhálskirtilskrabbameini. Krabbameinstilfellunum fækkaði um þriðjung hjá karlmönnum sem fengu 200 mcg af seleni.
Umfangsmiklar rannsóknir standa nú yfir þar sem tugþúsundir karla og kvenna taka annars vegar selen, og hins vegar lyfleysu, árum saman.

page83_3

Til viðbótar rannsóknum á þætti glutathione í tengslum við krabbamein, er verið að gera klínískar rannsóknir á glutathione í Amyotrophic lateral sclerosis (ALS), eða MND, eins og sjúkdómurinn er oftast kallaður á Íslandi.

Þá er selen nauðsynlegt fyrir starfsemi brissins og hefur hlutverki að gegna í teygjanleika vefja og er notað við ýmsum húðvandamálum, svo sem hrukkum og í hársápu við flösu. Selen er talið hægja á öldrun, ásamt mangani, auk þess sem það er talið auka orku.
Selen, ásamt fleiri steinefnum, svo sem kopar og zinki, er talið hraða því að brunasár grói.

Frumefnið selen er eitt snefilefna líkamans

Frumrannsóknir benda til að selen hafi áhrif gegn myndun skýs á auga (cataract), slái á astmaeinkenni og vísindamenn í Evrópu eru um þessar mundir að rannsaka, með styrk frá samtökum fólks með slímseigjusjúkdóm (Cystic Fibrosis), möguleg innöndunaráhrif glutathione á sjúkdóminn, aðrir eru að rannsaka innöndunaráhrif glutathione á astma.
Þá er selen einnig talið hafa áhrif á Parkinsonssjúkdóminn, MS, psóriasis og blöðrur á eggjastokkum. Frekari rannsókna er þó þörf.

Dr. David Benton og Dr. Richard Cook gerðu tvíblinda rannsókn á áhrifum selens á andlega líðan þátttakenda  við Walesháskóla (1991).
50 einstaklingar voru valdir af handahófi í rannsóknina og var sumum gefin 100 mcg af seleni í fimm vikur en öðrum lyfleysa. Þátttakendum var gert að skrá andlega líðan sína en báðir hóparnir héldu áfram að borða það sem þeir voru vanir. Þeir sem tóku lyfleysuna urðu ekki varið við neinar breytingar en þeir sem fengu selen upplifðu talsverðar breytingar til hins betra, þar á meðal minni kvíða og þunglyndi. Áhugaverðast var þó að þeir einstaklingar sem borðuðu fæðu sem innihélt minnsta magnið af seleni en fengu það til inntöku, upplifðu mestar breytingar á andlegri líðan sinni, auk þess sem þeir voru ekki eins þreyttir.

Sumar rannsóknir benda til þess að því minna sem neytt er af andoxunarefnum því hærri verði tíðni hjartasjúkdóma og aðrar rannsóknir benda til þess að sindurefni ýti undir hjartasjúkdóma. Til dæmis má nefna að oxað LDL (stundum kallað vonda kólesterólið) stuðlar að æðakölkun í kransæðum. Selen er svo eitt andoxunarefnanna sem hindra oxun LDL kólesteróls og kemur þannig í veg fyrir kransæðastíflu.
Selenoprótein P er í blóðvökva og tengist einnig frumum sem eru innan á blóðæðaveggjum. Það virðist gegna því hlutverki að vera flutningsprótein fyrir selen. Það virkar einnig sem andoxandi vörn fyrir áðurnefndar frumur. Þar af leiðandi hefur því verið haldið fram að selen dragi úr hættunni á kransæðastíflu og hjartadrepi og hafi áhrif á æðakölkun og blóðtappa. Niðurstöður hafa þó verið misvísandi og frekari rannsókna er þörf.

HIV / AIDS skylt vanuppsog getur orsakað skort á ýmsum næringarefnum. Selenskortur er algengur hjá eyðnisjúklingum og talinn tengjast hárri dánartíðni þeirra. Vísindamenn telja að selen geti verið mikilvægt fyrir eyðnisjúklinga bæði vegna hlutverks þess í ónæmiskerfinu og sem andoxunarefni. Það hafa einnig verið getgátur um að rekja megi selenskort hjá eyðnisjúklingum til þess að HIV vírusinn þurfi selen til þess að fjölga sér. Rannsóknir standa yfir á hlutverki selens í eyðnisjúkdómnum.
Aðrar rannsóknir snúast um hvort alpha lipoic acid, efni sem getur aukið glutathione inni í frumunum, geti verið gagnlegt til að endurbyggja ónæmiskerfi eyðnisjúklinga.

Erfitt getur verið að greina selenskort en helstu einkenni hans eru hárlos, vöðvaverkir, vöðvarýrnun, þreyta, hækkun kólesteróls, sýkingar og truflanir í æðakerfi. Alvarlegur skortur eykur hættu á lifrarsjúkdómum, ófrjósemi, skjaldkirtilsjúkdómum, hjartasjúkdómum, sjúkdómum í liðum, skertu ónæmi gegn sjúkdómum og krabbameini. Langvarandi skortur hefur áhrif á hjartavöðva og liði. Hann getur leitt til Keshan-sjúkdóms, sem er bólguástand í hjartavöðva, en sjúkdómurinn er kenndur við Keshanhéraðið í Kína þar sem hann uppgötvaðist. Sjúkdómurinn hefur einnig greinst annars staðar í heiminum þar sem selenmagn í jarðvegi er mjög lítið.
Fólki sem farið hefur í garnastyttingu, fólki með meltingarsjúkdóma, svo sem Crohn’s, getur verið hætt við selenskorti vegna ónógs uppsogs næringarefna. Einnig inniheldur sumt sjúkrafæði vegna efnaskiptasjúkdóma, svo sem phenylketonuria (PKU), oft lítið selen. Þá geta sumir megrunarkúrar innihaldið lítið selen. Þeim sem neyta mikils áfengis, reykja, fólki á einhæfu fæði og öldruðum getur verið hætt við selenskorti.
Ráðlagður dagskammtur er u.þ.b. 55 mcg en börn ættu að taka mun minna magn. Ekki er ráðlegt að taka meira en 400 mcg á dag af seleni, og þá einungis í skamman tíma, en til langs tíma er ekki ráðlegt að taka meira en 200 mcg á dag. Barnshafandi konur og sjúklingar með alvarlega sjúkdóma ættu ekki að taka stærri skammta án þess að ráðfæra sig við lækni.
Stórir skammtar af seleni geta haft eituráhrif sem geta verið lífshættuleg Krónísk seleneitrun (selenosis) getur átt sér stað þegar smærri skammtar selens eru teknir í langan tíma. Algengustu einkennin eru hárlos og neglur og hár verða stökk og brotna. Önnur algeng einkenni selenosis eru meltingartruflanir, ógleði, uppköst, útbrot, hvítlaukslykt frá vitum, málmbragð í munni, þreyta og pirringur. Selen er að mestu uppsogað í þörmunum og útskilst í gegnum þvag og gall.
Við seleneitrunarástand skilst dimetyldiselenid út í gegnum lungu, sem veldur hvítlaukslyktinni.
Selen má finna í jarðvegi, vatni og í sumu fæði, svo sem sólblómafræjum, valhnetum, rúsínum og Brasilíuhnetum. Ef ræktunarjarðvegur er selensnauður getur það valdið selenskorti hjá fólki sem borðar mat af slíkum svæðum. Selen fæst helst úr fiski, skelfiski, sjávarafurðum og innmat. Það fæst einnig úr hvítlauk og tómötum. Lítið selen er í grænmeti, mjólkurvörum og ávöxtum. Stórir skammtar C-vítamíns eru taldir draga úr frásogi og nýtingu selens. Það er hins vegar talið nauðsynlegt til að viðhalda selenmagni líkamans.

Myndir og heimildir;
• Jane Higdon, Ph.D, Linus Pauling Institute, Oregon State University, Október 2003.
• U.S. National Library of Medicine, Medical Encyclopedia. Selenium antioxidant, 01 September, 2006.
• © 2003-2008 Medical College of Wisconsin, information provided by National Institutes of Health, Article Created: 2000-07-26.
• Elísabet S Magnúsdóttr, Næring og hollusta, Iðunn, Reykjavík 1992.
• Earl L. Mindell, Bætiefnabiblían, Skákprent, 1985.
• Samuel Uretsky Pharm.D., The Gale Group Inc., Gale, Detroit, Gale Encyclopedia of Alternative Medicine, 2005.
• Harold M Silverman, Pharm. D., Joseph Romano, Pharm. D. And Gary Elmer, Ph.D, The vitamin book, Bantam books, 1999.
• Pressman, A. H. Glutathione: the Ultimate Antioxidant. New York: St. Martin’s Press, 1997.
• Jerk W. Langer, Politikens bog om vitaminer og mineraler, Politikens forlag A/S, 2001.
• Jerk W. Langer, Politikens bog om kost tilskud, Politikens forlag A/S, 2003.
• Heimir Þór Andrason, Lyfjabókin, Lyfja hf. 2007.
• Vísindavefurinn.is  Housecroft, Catherine E. og Constable, Edwin C. 2006. Chemistry, þriðja útgáfa. Pearson education.
• Vitaminbag.com.