,,Ómöguleg tilfelli“

,,Ómöguleg tilfelli“

-úr bókinni CranioSacral Therapy – Touchstone for Natural Healing
eftir John E Upledger, DO, OMM, bls. 36.

page67_1

Það er greinilegt að Höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð getur haft algjörlega óvænt áhrif.
Ég var ekki alltaf fær um að spá fyrir um áhrif meðferðarinnar fyrirfram en ég var nokkuð viss um að hún væri algjörlega áhættulaus. Ég tel að það sé alltaf þess virði að prófa Höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð og sjá hvað gerist; sérstaklega í „vonlausum tilfellum“.
Mig langar til að deila með ykkur reynslu minni af nokkrum tilfellum þar sem að Höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð hefur gefist ótrúlega vel.

Í fyrra tilfellinu var um að ræða 14 ára strák sem hafði verið þroskaheftur frá því hann fékk heilahimnubólgu 5 ára gamall. Frændi hans, sem var skurðlæknir, hafði séð til þess að drengurinn fengi alla mögulega meðferð sem gæti hugsanlega hjálpað, alveg frá því að hann fékk heilahimnubólguna og þar til móðir hans kom með hann til mín 14. ára gamlan. Ég meðhöndlaði drenginn tvisvar í viku, í um það bil fjóra mánuði, og fyrsti sjáanlegi árangurinn var sá að hann þurfti ekki lengur að leggja sig eftir skóla á hverjum degi. Það næsta var að hann varð ekki eins hikandi í tali. Þá kom að því að einkakennari drengsins, sem hafði unnið með honum í tvö ár til að hjálpa honum að ná gagnfræðaprófi, tilkynnti að hann þyrfti ekki lengur einkakennslu.
Þá leituðu foreldrar drengsins aftur til sálfræðingsins sem hafði greint hann fyrir Höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferðina og báðu hann um að prófa hann aftur. Kom þá í ljós að greind hans hafði aukist um 20 stig og útskrifaðist drengurinn úr gagnfræðaskóla með B+ í aðaleinkunn. Í framhaldi af því fór hann í menntaskóla og útskrifaðist sem aðstoðarmaður í lækningatækni (medical technology). Síðustu 10 árin hefur þessi maður verið framkvæmdastjóri klínískrar rannsóknarstofu (clinical laboratory) í stórri borg með 100 manns undir sinni stjórn.
Þannig reyndist hægt að meðhöndla hina varanlegu þroskahömlun.
Ég trúi því að Höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferðin hafi aukið blóðflæði til heilans og einnig aukið flæði á heila- og mænuvökva hjá drengnum. Þroskahömlunin átti líklega rætur að rekja til krónísks skorts á súrefni og næringu til heilans. Þessi maður heldur enn sambandi við mig og kemur einu sinni á ári til mín í Flórída til að „halda sér við“.

Í öðru tilfelli var um að ræða þriggja ára dreng sem hafði aldrei talað. Farið var með hann til taugasérfræðinga og talmeinafræðinga og var foreldrunum sagt að útlitið væri svart. Enginn vissi hvað var að og engin von var talin á því að hann gæti lært að tala.
Ég meðhöndlaði drenginn einu sinni í kennslustund þegar ég var að kenna í Kaliforníu. Ég fann þá og leiðrétti alvarlega hömlun á Höfuðbeina og spjaldhryggjarkerfinu í talstöðvunum (planum temporale) vinstra megin á höfði drengsins. Faðir hans hringdi í mig á hótelið morguninn eftir og tjáði mér að sonurinn hefði sagt sitt fyrsta orð í bílnum á leiðinni heim. Í dag er þessi drengur alveg eðlilegur – og ef eitthvað er þá er oft erfitt að fá hann til að þagna!

Þetta eru ekki kraftaverk. Þetta eru dæmi um hvað getur gerst þegar lífeðlisfræðilegt kerfi, sem enn hefur ekki almennt verið viðurkennt eða skilningur er á, er meðhöndlað.

Hallfríður M Pálsdóttir þýddi