Nálastungur

Nálastungur

eftir Dagmar J. Eiríksdóttur
Nálastungur eru ævafornt kerfi sem þróast hefur í þúsundir ára í Kína. Hin sígilda kínverska nálastungumeðferð er flókin heilunaraðferð og tekur þó nokkur ár að ná tökum á henni og mörg ár til viðbótar að ná visku og leikni. Litið er á manneskjuna sem eina heild, líkama, huga og anda. Þessi heild er hluti af sköpunarverkinu þar sem hver og einn er einstakur með sín sérstöku tengsl við umhverfið. Þetta er lækningakerfi þar sem nálum er stungið í vissa punkta á líkamanum. Alls eru þeir 350 talsins og hafa nákvæma staðsetningu undir ysta lagi húðarinnar og liggja á tólf orkubrautum víðsvegar um líkamann. Þegar stungið er í einn eða fleiri eru framkölluð mismunandi áhrif, eftir því hvernig nálunum er beitt og orkuflæði brautanna er aukið eða dregið úr því.
Grunnhugmyndin að hefðbundnum nálastungum er að lífsorka líkamans, sem stjórnar starfsemi líffæranna og öðrum kerfum líkamans, flæði um líkamann eftir vissum orkubrautum. Þessi lífsorka er kölluð chi. Til þess að hvert líffæri geti unnið rétt, sé heilbrigt og jafnvægi sé á milli líffæranna innbyrðis, þarf chi-orkan að renna óhindruð og með réttum styrk um hverja orkubraut. Þegar svo er eru líkami og sál heilbrigð. Komi upp veikindi hefur orkuflæðið raskast. Orsökin getur verið hvort heldur líkamlegs eða andlegs eðlis. Það er svo meðhöndlarans að leiðrétta misvægi á orkuflæðinu og sjá um að líkamsstarfsemin verði eðlileg og í takt við hrynjandi einstaklingsins. Meðhöndlarinn hlustar eftir orkuflæði líkamans með skilningi og þekkingu á sérstökum púlsum. Þá er hlustað eftir jafnvægi innan orkurásanna, sem endurspeglast í 12 púlsum sem teknir eru á úlnlið. Það krefst mikillar þjálfunar og það tekur tíma að auka skynjun og næmleika fingurgómanna. Með tímanum lærist meðhöndlaranum að greina mismunandi blæbrigði í púlsunum.
Yin og yang Kínverjar hafa þróað ákveðið kerfi sem gerir þeim kleift að finna orkuástand einstaklingsins. Grundvöllurinn að þessu kerfi er kenningin um yin og yang og frumþættina fimm. Þau eru undirstaða allrar kínverskrar menningar og eru tilkomnar af því að kínverjar ígrunduðu gang náttúrunnar og fylgdust náið með breytingum sem áttu sér stað og þeim áhrifum sem þær höfðu á lífið. Kyrrstaða er ekki til og allt fylgir ákveðinni hringrás. Augljósastar eru dagur og nótt og árstíðaskiptin.
Kínverjar sáu að frumorkan flæðir alltaf á milli tveggja andstæðna; dags og nætur, sumars og veturs, lífs og dauða, hliðstætt því að orka flæðir milli jákvæðs og neikvæðs skauts á rafhlöðu. Annað skautið er ekki til án hins. Þeir vissu að þessi andstæðu öfl chi-orkunnar voru allsstaðar að verki og kölluðu þau yin og yang. Það má líkja yang við sól, útþenslu, dag og hita en yin er andstæðan nótt, kuldi og stilla. Það er mikilvægt að skilja samspilið á milli yin og yang. Þau eru óaðskiljanleg og hvorugt er hinu mikilvægara. Þau eru til staðar í öllu, á stöðugri hreyfingu og í dynamisku jafnvægi. Eins og dagur sem líður inn í nóttina og sólarljós sem lýsir upp skugga. Kínverjar skildu mikilvægi þessa jafnvægis ekki aðeins í náttúrunni heldur líka í mannslíkamanum. Ýmislegt raskar þessu jafnvægi og hindrar flæði á chi. Þá myndast misræmi á milli yin og yang og það leiðir til veikinda. Hér eru meðtalin tilfinnningaleg atriði s.s. stress, kvíði, reiði, hræðsla og sorg ásamt ýmiss konar öðrum sálrænum áföllum.
Frumþættirnir fimm
Á kínverska vísu eru árstíðirnar fimm: vor/viður árstíð grósku þar sem fræ og plöntur vakna til lífsins, væntingar eru í lofti og allt að fæðast að nýju. Sumar/eldur sólin hitar jörðina og örvar gróandann og kallar fram þroska. Síðsumar/jörð geislar sólarinnar brenna ekki eins heitt og áður, ávextir erfiðisins koma í ljós í samræmi við lögmál náttúrunnar. Haust/málmur trén fella laufin, þau sem áður voru þakin ávöxtum og laufskrúði afsala sér skrúðanum og búa sig undir endurkomuna. Vetur/vatn árstíð dvala, hvíld.
Hringrás frumþáttanna fimm er önnur meginstoð kínverja til þess að finna og fylgjast með orkuflæði einstaklingsins. Þá er fundið hvort jafnvægi og samræmi eru í og á milli orkuflæðis frumþáttanna eða hvort einhver þeirra, og þá hver, hefur farið úr skorðum. Leitað er eftir heildarmynd þar sem eitt leiðir af öðru þannig að hægt verði að meðhöndla orsök ójafnvægis frekar en sjúkdómseinkennin sjálf. Engir tveir menn eru eins og því eru mismunandi orsakir fyrir því að við veikjumst. Þess vegna eru tveir einstaklingar með sömu einkenni ekki meðhöndlaðir á sama hátt. Þegar orsakir ójafnvægis eru fundnar, eru viðeigandi punktar valdir í samræmi við lögmál sem stjórna hreyfingu og uppbyggingu á chi líkamans. Lífsorkan er til staðar í öllu sköpunarverkinu og flæðir í gegnum allt líf á jörðinni. Sérhver breyting á chi orkunni í umhverfi okkar kemur einnig fram í líkamanum.
Markmið meðferðarinnar
Um leið og nálastungumeðferðin fer að hafa áhrif vaknar líkami sjúklingsins og tekur til við að heila sjálfan sig og ná eðlilegu jafnvægi. Sjúkdómar sem hafa verið bældir eiga það til að koma aftur upp á yfirborðið. Þetta er góðs viti og gefur til kynna að líkaminn sé farinn að takast á við gömul mein. Meðferðin getur einnig haft þau áhrif að líkaminn hreinsar út úrgangs- og eiturefni sem safnast hafa fyrir og vart verði við einkenni eins og svita, niðurgang, kvef, bólur og kláða. Heilsan getur endurnýjast þegar chi orkan flæðir aftur eðlilega um orkubrautirnar og chi orka líffæranna og starfsemi þeirra verður aftur eðlileg. Viðkomandi fer að líða betur, fær endurnýjað afl til þess að takast á við erfiðleika sem áður virtust óyfirstíganlegir. Menn eiga auðveldara með að sjá hlutina í réttu ljósi og geta því tekið skynsemlegri ákvarðanir varðandi lifnaðarhætti sína. Það getur alltaf komið upp sú staða að meðhöndlaranum finnist rétt að örva sjúkling til að takast á við breytingar sem eru honum nauðsynlegar s.s. fæðuval, líkamsþjálfun og aðra lifnaðarhætti. Margir eru á lyfjum þegar þeir leita sér hjálpar í nálastungumeðferð. Þessar inntökur má ekki minnka eða stöðva nema í samráði við lækni.
Eftir að nálum hefur verið stungið í valda punkta á líkamanum eru þær látnar vera þar í 21 mínútu en það er sá tími sem það tekur chi orkuna sem unnið er með að fara einn hring eftir orkubrautunum. Þegar börn eru meðhöndluð eru nálarnar hafðar í nokkrar sekúndur, en tíminn aukinn eftir því sem barnið er eldra, eða að punktarnir eru nuddaðir. Stundum er “moxa” sett á nálina, en það er þurrkaða jurtin Artemisia vulgaris sem kveikt er í þar til glóir. Þannig má hita punktana og auka virkni þeirra. Notaðar eru einnota nálar ýmist frá Kína eða Japan.
Áhrif nálastungna eru víðtæk þar sem þær örva mátt mannsins og svörun líkamans til endurnýjunar og viðhalds. Kínverjar halda því fram að ef manneskjan er í fullkomnu jafnvægi þá sé hún ónæm fyrir farsóttum. Hafi mótstaðan minnkað geta sjúkdómar sest að. Til þess að halda góðri heilsu þurfum við að aðlaga okkur aðstæðum, en ekki láta streituvaldandi þætti ná tökum á okkur, því þá minnkar mótstaðan og við náum ekki jafnvægi í orkuflæðið af eigin rammleik.
Öldum saman hafa nálastungur verið notaðar sem fyrirbyggjandi meðferð því best er að leiðrétta ójafnvægi innan líkamans frá byrjunarstigi áður en alvarlegir sjúkdómar hafa náð bólfestu. Í Kína er það viðtekin venja að láta nálastungu-meðhöndlara fylgjast með sér reglubundið, yfirleitt í samræmi við árstíðaskipti.
Höfundur var við nám í Bretlandi í The International College of Oriental Medicine (ICOM). Það er fjögurra ára nám. Í London School of Acupuncture (LCA) nam hún síðan veturlangt nálastungumeðferð á börnum. Hún útskrifaðist árið 1995 og hefur starfað við nálastungur síðan. Hún er einn af stofnfélögum Nálastungufélags Íslands.