Líkami í jafnvægi

 

page34_1

Líkami í jafnvægi læknar sig sjálfur
Sífellt stækkar sá hópur fólks sem leitar óhefðbundinna lækninga við ýmsum þeim kvillum og veikindum sem upp koma. Möguleikarnir sem bjóðast í því sambandi verða sífellt fleiri, en þær aldagömlu aðferðir sem hómópatar starfa samkvæmt gagnast þó mörgum best. Alls eru um fimmtíu hómópatar starfandi hér á landi og allmargir til viðbótar eru nú í námi í þessum aldagömlu fræðum sem má kalla lækningalist.

„Hómópatía vinnur vel með hefðbundnum lækningum,” segir Anna Birna Ragnarsdóttir formaður Organon, fagfélags hómópata. „Flestir Íslendingar eru með heimilislækni og að sjálfsögðu grípum við hómópatar alls ekki fram fyrir hendurnar á læknum eða vinnum gegn þeirra ráðleggingum. Hins vegar er talsvert um að fólk sem er í meðferð hjá læknum komi hingað og leiti eftir frekari hjálp. Fólk telur sig ekki hafa neinu að tapa og telur ráð okkar og lausnir að minnsta kosti tilraunarinnar virði. Oft á tíðum geta hefðbundin læknismeðferð og hómópatía raunar unnið mjög vel saman. Ég hef í starfi mínu ekki orðið vör við neina óánægju lækna við þetta og í sumum tilvikum beinlínis vísa þeir sjúklingum sínum til okkar. „

Lækningin kemur frá lífskraftinum
Segja má að í læknisfræði séu tvær meginstefnur ríkjandi. Önnur stefnan er sú að líkaminn geti læknað sig sjálfur og öll meiriháttar inngrip séu slæm og raunar óþörf. Nefnir Anna Birna í því sambandi að allir þekki á eigin skinni – í tvöfaldri merkingu þess orðatiltækis – að öll smásár og skrámur sem við fáum grói yfirleitt sjálf, fyrr eða síðar. Ef ekki sé það væntanlega vegna þess að einhverjir tilteknir þættir í efnabúskap líkamans séu í ójafnvægi ellegar aðrir þættir, ýmist líkamlegir eða andlegir. Þannig talaði Hippókrates hinn gríski, faðir læknisfræðinnar, 450 árum fyrir Kristburð, um hliðstæður og andstæður í lækningum og hið síðarnefnda myndi vera það sem í dag heita hefðbundnar lækningar.

„Líkaminn er í eðli sínu fær um að lækna sig sjálfur. Þessi hæfileiki kemur frá orkulind sem við kjósum að nefna lífskraftinn – sem er annars gefin ýmis nöfn frá einu menningarsamfélagi til annars. Sjúkdómar og einkenni þeirra eru í raun viðbrögð okkar við áreiti og álagi og merki um viðleitni líkamans til að ná aftur jafnvægi og heilsu. Heilsa hvers einstaklings ræðst því mikið af aðlögunarhæfni og af þeim sökum miðast starf hómópata fyrst og síðast við að koma lífsorku skjólstæðinga sinna í jafnvægi svo viðkomandi geti náð heilsu að nýju, á sínum eigin forsendum,” segir Anna Birna. „Nei, ég verð aldrei vör við að fólki þyki feimnismál að leita til hómópata, fremur en til lækna yfirhöfuð. Þegar fólk kemur hingað og leitar eftir aðstoð er okkar fyrsta verkefni ævinlega að taka ítarlegt viðtal við fólk þar sem við spyrjum viðkomandi um almennt heilsufar, lífsstíl, matarvenjur og raunar hvað eina sem hefur áhrif á líf og heilsu. Með þessu reynum við að fá heildarmyndina og högum starfi okkar samkvæmt því.„

Að tryggja að jafnvægið haldist
Þeir kvillar sem fólk leita aðstoðar hómómata með eru af ýmsum toga. Sumir eru með smákvef en aðrir eru alvarlega veikir, jafnvel á því stigi að útlitið er tvísýnt. En einu má gilda hver veikindin eru, stóra viðfangsefni hómópatans er ævinlega að glöggva sig á því hvar og hvernig jafnvægið í líkamanum hefur raskast.

„Ef líkaminn kemst aftur í jafnvægi með aðferðum okkar má segja að starfið hafi borið árangur. Að tryggja að þetta jafnvægi haldist er í raun megininntakið í hómópatíunni. Við lítum alltaf svo á að manneskjan sé ein heild og nálgumst manneskjuna þannig. Hefðbundnar lækningar ganga hins vegar fremur út á að taka á afmörkuðum þáttum,” segir Anna Birna sem lauk námi í hómópatíu í Bretlandi fyrir tveimur árum og starfar í dag í Heilsuhvoli í Borgartúni 33 í Reykjavík, þar sem hafa starfsaðstöðu alls átján manns, það er hómópatar, nuddarar, nálastungufræðingur, alexanderstæknikennari, osteópati, sérfræðingar í höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð, og svo mætti áfram telja.

Remedíur í 5.000 afbrigðum
Hómópatar nota svokallaðar remedíur, örefni sem í stórum skömmtum myndu kalla fram hjá heilbrigðu fólki svipuð einkenni og þeim er ætlað að bæta. Þær eru unnar úr jurta-, dýra- og steinaríkinu og eru notaðar það mikið þynntar að jafnvel er ekki talað um þær sem eiginlegt efni, heldur hvata. Remedíurnar, sem eru til í um 5.000 afbrigðum, eru með öllu skaðlausar og valda ekki aukaverkunum. Ef tekin er remedía sem svo sýnir sig að hentar ekki tilteknum einkennum er ekkert að óttast. Remedíur eru eins og lyklar. Sé röngum lykli beitt lýkst skráin ekki upp, það gerist ekkert.

„Ég hef heyrt af tilvikum þar sem læknar hafa óskað eftir frekari upplýsingum um hvaða meðferð við erum að veita sjúklingum sem einnig ganga til þeirra. Helst setja læknar út á að remedíurnar séu svo rækilega útþynntar í vatni, að þær geri ekki nokkur gagn. En þá má svo sem á móti segja að engum verður meint af því að drekka vatn, enda verður vitund fyrir mikilvægi þess og hollustu sífellt meiri,” segir Anna Birna. „Rétt eins og sumir læknar benda skjólstæðingum að leita til hómópata eftir aðstoð er fólk í þeirri stétt líka iðið við að vísa fólki til sérfræðinga. Eftir ítarleg viðtöl við okkar skjólstæðinga höfum við orðið nokkuð glögga sýn á hvað hrjáir viðkomandi og með vísan til þess hvað jafnvægið er mikilvægt þá er skýringanna oft að leita í andlegri vanlíðan – sem aftur leiðir til þess að líkaminn lætur undan. Þegar svo er ástatt eru sálfræðingar, geðlæknar og aðrir slíkir ef til vill hæfastir til að veita viðkomandi þá hjálp. Á sama hátt leiða líkamleg veikindi oft til andlegs ójafnvægis. Svona helst þetta allt í hendur og blessunarlega er fólk sér æ betur meðvitað um að efnið og andinn verða ekki sundur skilið.”

Erfitt að ná jafnvægi eftir álag
Í ótalmörgum gömlum snjáðum bókum má á gulnuðum síðum lesa frásagnir af hetjulæknum fyrri tíðar. Í letur hafa verið færðar frásagnir af hómópötum, mönnum sem kunnu sitthvað fyrir sér í þeim fræðum sem slíkar lækningar byggja á og voru fyrir vikið líftrygging fólks í heilu héruðunum. Slíkir menn þóttu sannar hetjur og voru víða dáðir. En starfa hómópatar í dag eftir sömu aðferðum og gert var fyrr á tíð? Já, svarar, Anna Birna, en bætir við að vissulega séu lækningar af þessum toga í framþróun og margt hafi breyst síðustu áratugi.

„Þó er öruggt að hómópati fyrir kannski einni öld þurfti ekki að glíma við sjúkdóma sem helguðust af ýmiskonar ytri umhverfisþáttum, svo sem mengun, hávaða og öðru utanaðkomandi áreiti – að viðbættu því mikla álagi sem fólk í dag er undir bæði í starfi og einkalífi. Kröfur nútímasamfélags eru óskaplega miklar og ekki alltaf auðvelt að standa undir þeim. Raunar eru kröfurnar svo miklar í mörgum tilvikum að fólk leyfir sér ekki þann sjálfsagða munað að taka sér frí, heldur vinnur út í hið óendanlega og er þó orðið algjörlega útbrunnið bæði á sál og líkama. Þreytan safnast upp og á endanum gefur heilsan sig. Vissulega getur líkaminn læknað sig sjálfur eftir slíka brotlendingu, en þegar fólk þjáist orðið af síþreytu eftir mikið og langvarandi álag er mun erfiðara en ella að ná á ný því jafnvægi sem líkaminn þarf.”

Viðtal sem Sigurður Bogi Sævarsson tók við Önnu Birnu Ragnarsdóttur, formann Organon fagfélag hómópata og var birt í 13 tlb. Vikunar, 2006.