Hómópatísk og vistfræðileg sýn á smitsjúkdóma

Hómópatísk og vistfræðileg sýn á smitsjúkdóma

Þýtt og endursagt: Jóna Ágústa Ragnheiðardóttir hómópati, Skráður græðari.

Louis Pasteur viðurkenndi seint á ferlinum að líklega væru sýklar eftir alltsaman ekki orsök allra sjúkdóma heldur einkenni. Honum varð ljóst að sýklar ollu veikindum einkum þegar ónæmis- og varnarkerfi mannsins var of veikburða til að berjast gegn þeim.

Orsakir sjúkdóma eru ekki einasta bakteríur heldur veikjast menn þegar ónæmisvörn þeirra er léleg, s.s. vegna næringarskorts, álags og erfiðs andlegs ástands. Pasteur lýsti tilraun með sýkta orma og staðhæfði að hinn mikli fjöldi þeirra í þörmunum væri fremur afleiðing sjúkdóma en orsök.

Með þessu djúpa innsæi öðlaðist Pasteur vistfræðilegan skilning á smitsjúkdómum. Þeir eiga ekki eina einfalda orsök heldur eru þeir afleiðing flókinna víxlverkunaráhrifa innra sem ytra með einstaklingnum.

Við getum notað líkingar til að hjálpa okkur til að skilja þetta vistfræðilega sjónarmið. Fluga sækir í rusl en er ekki orsök þess. Moskítóflugan sækir í fen, því þar er vatn kyrrt, sem er henni nauðsyn svo hún get verpt eggjum sínum og þau fengið frið. Fenjamýrin er í eðli sínu kjörumhverfi fyrir moskítófluguna til að fjölga sér.

Bóndi nokkur reynir að eyða moskítóflugum af landi sínu með því að sprauta eitri yfir fenin. Ef hann er heppinn drepast allar flugurnar. En þar sem fenin skaðast ekki af eitrinu eru þau áfram kjöraðstæður fyrir moskítóflugur. Bóndinn sér flugurnar þyrpast áfram í fenin og sprautar eitrinu aftur en eftir nokkurn tíma þýðir ekkert að eitra því flugurnar hafa vanist eitrinu og með hverri kynslóð eykst vörn þeirra gegn því. Bóndinn þarf því að nota sterkara og sterkara eitur en flugurnar eru orðnar svo sterkar að sumar þeirra lifa allt af. Sömu sögu er að segja um streptokokkasýkingu í hálsi barna; það er er ekki endilega hún sem veldur særindum í hálsi frekar en fenjamýrar eru orsakavaldur moskítóflugna. Streptokokkar fara oft í hálsinn á heilbrigðu fólki án þess að það finni til særinda. Einkenni streptokokka-háls taka sig því aðeins upp að kjöraðstæður myndist fyrir streptokokkana til að fjölga sér hratt, þá ráðast þeir inn í hálsvefinn. Eins og moskítóflugurnar setjast streptokokkarnir aðeins að í hentugu umhverfi.

Barn með streptokokka-háls er yfirleitt meðhöndlað með fúkkalyfjum. Þótt að þau losi barnið við bakteríurnar tímabundið geta þau ekki breytt þeim þáttum sem ollu sýkingunni í upphafi. Þegar bóndinn úðar eitri eða læknirinn skrifar upp á fúkkalyf, breyta þeir ekki ástandinu sem olli vandamálinu svo moskítóflugurnar og bakteríurnar geta snúið aftur í hentugt umhverfi. Til að gera málið enn verra þá drepa fúkkalyfin bæði jákvæðar og neikvæðar bakteríur. Þar sem jákvæðu bakteríurnar leika stórt hlutverk í meltingunni veikist hæfileiki einstaklingsins til að sjúga upp nauðsynleg næringarefni og hann verður veikari fyrir frekari sýkingum.

Marc Lappe, prófessor í Háskólanum í Illinois og höfundur bókarinnar: „Þegar fúkkalyfin bregðast“, segir að þegar góðviljaðar bakteríur deyja skilji þær bókstaflega eftir sig varnarlausa auðn og líffæri sem áður voru vernduð af eðlilegum bakteríum eru nú ofurseld hvaða veiru sem þar getur fest rætur og sumar valda alvarlegum og óþekktum sjúkdómseinkennum.

Sumir læknar hafa séð að ónauðsynleg fúkkalyfjanotkun getur breytt algengri sveppa-sýkingu (candida albicans) sem einkennist af kláða í meiriháttar candida-sýkingu sem getur verið orsök margra bráða- og krónískra vandamála. Tíð fúkkalyfjanotkun getur líka breytt þeim bakteríum sem við þurfum á að halda, í pirrandi og stundum alvarlegar sýkingar í veikburða fólki, gamalmennum og þeim öðrum sem hafa lágan ónæmisþröskuld.

Og auðvitað aðlagast bakteríurnar fúkkalyfjunum og lifa þau af. Því þurfa vísindamenn stöðugt að breyta lyfjunum (nú þegar eru til 300 tegundir af pensilíni) eða framleiða sterkari og sterkari fúkkalyf (sem almennt hafa fleiri og fleiri alvarlegar aukaverkanir). Lappe segir að þrátt fyrir góðan hug séum við að framleiða fleiri sýkla en lyf þar sem hvert nýtt lyf vekur upp bókstaflega milljónir baktería/sýkla.

Fyrir aðeins 15-20 árum gagnaðist pensilín nánast alltaf við lekanda. Nú eru til lekanda-bakteríur sem hafa lært að verjast pensilíni og hafa þær fundist í 50 löndum.

Alexander Fleming sem uppgötvaði pensilínið varaði við ofnotkun fúkkalyfja. „Ef vísindamenn og almenningur virða þessa aðvörun að vettugi munum við fljótt horfast í augu við að 80-90% sýkinga standast öll fúkkalyf“ sagði Harvard prófessorinn Walter Gilbert sem fékk Nóbelsverðlaunin í lyfjafræði.

Varnaðarorð Pasteurs um mikilvægi ónæmiskerfisins til að fyrirbyggja sjúkdóma hafa fallið í grýttan jarðveg. Flestir vísindamenn viðurkenna sýklakenninguna í orði en aðeins fáeinir hafa sýnt skilning á mikilvægi vistfræðilegs jafnvægis örvera í líkamanum. Sífellt fleiri vísindamenn eru þó farnir að viðurkenna mikilvægi þess að eiga annað val en fúkkalyf í baráttunni við sýkingar, að þær séu meðhöndlaðar þannig að vistfræðilegt jafnvægi sé síður truflað. Hómópatískar remedíur gegna stóru hlutverki með því að vera einn af þeim valkostum sem bjóðast.

Hjálpa fúkkalyfin gegn háls- og eyrnasýkingum?

Claude Bernard, “faðir tilraunalífeðlisfræðinnar”, staðfesti orð Pasteurs um að bakteríur væru ekki orsök sjúkdóma. Í bók sinni: „Kynning á fræðslu um tilraunalyf“ segir hann: Ef spennuvaldurinn væri aðalþátturinn, tökum lungnabólgu sem dæmi, segjum að allir sem verður kalt, fái kvef, munu aðeins örfá tilfelli snúast upp í lungnabólgu. Ef einstaklingurinn er ómóttækilegur munu sterkustu spennuvaldar ekki hafa nokkur áhrif á hann. Móttækileiki er þungamiðjan í allri tilraunalífeðlisfræði og hin raunverulega orsök flestra sjúkdóma.

Á heilsuráðstefnu 1976 sagði Jonas Salk að það væru tvær leiðir til að lækna fólk. Í fyrsta lagi má reyna að stjórna þeim einkennum sem manneskjan upplifir og í öðru lagi að reyna að hvetja ónæmis- og varnarkerfi hennar svo líkaminn geti læknað sig sjálfur. Meðan læknar leggja tryggð við hið fyrrnefnda stuðla hómópatían og aðrar heildrænar meðferðir að því síðarnefnda.

Gott dæmi um gildi fúkkalyfja er eyrnaverkur barna. Eyrnasýking er orðin algengasti barnasjúkdómurinn í dag. Sýking í miðeyra og hljóðhimnu kallast otitis media, og skrifa flestir læknar upp á fúkkalyf við henni. Rannsóknir hafa sýnt fram á að fúkkalyfin bæta ekki heilsu barnanna, þegar þau eru borin saman við börn sem aldrei hafa fengið fúkkalyf. Aðrir hafa fundið að fúkkalyfin draga tímabundið úr einkennum en það sama átti líka við hjá þeim börnum sem fengu gervipillur. Enn aðrir hafa komist að þeirri niðurstöðu að 70% barna með miðeyrasýkingu hafa enn vökva í eyranu eftir fjögurra vikna meðferð og að 50% barna fá aðra eyrnasýkingu innan þriggja mánaða.

Þótt sumir læknar fullyrði að þakka megi fúkkalyfjunum hversu fá tilfelli eru af alvarlegum afleiðingum eyrnasýkinga s.s. mastoidbeinsbólgu (mastoiditis) hafa rannsóknir sýnt fram á að engar sannanir eru fyrir því að fúkkalyfin dragi úr þeim. Hómópatar staðfesta svipaðan fjölda af alvarlegum tilfellum án notkunar fúkkalyfja. Rannsóknir hafa líka leitt í ljós að börn með eyrnasýkingu sem meðhöndluð voru með fúkkalyfjum sýktust þrisvar sinnum oftar en þau sem fengu enga meðhöndlun.

Í æ ríkari mæli setja læknar rör í eyrun þegar um króníska eyrnasýkingu er að ræða og gefa annaðhvort fúkkalyf með þeim eða ekki. Þessi rör auðvelda vökvastreymi úr eyranu en meðferðin beinist aðeins að afleiðingu vandamálsins, en ekki ástæðu sýkingarinnar. Þetta gæti verið ástæðan fyrir því að menn velta nú orðið vöngum yfir gildi röranna.
Fúkkalyfin og rörin eru meðhöndlun á einkennum vandans en styrkja ekki líffærakerfið til að berjast á móti sýkingum.

Í íslenskri læknastétt hafa verið viðraðar áhyggjur af fúkkalyfjagjöf gegn eyrnasýkingum. Menn líta til þess að þróunin í Bandaríkjunum hefur orðið sú að þar hafa læknar gefið æ sterkari fúkkalyfjaskammta og eru nú komnir út í það að nota alsterkustu meðul gegn vægum tilfellum.

Önnur goðsögn um fúkkalyfin er um gagn þeirra við sárindum í hálsi. Réttlætingin fyrir notkun þeirra í slíkum tilfellum hefur verið að fyrirbyggja hjartgigt (Rheumatic Fever) sem getur verið lífshættuleg. Rannsóknir hafa sýnt að nú á tímum er sérlega lítil hætta á hjartgigt og það er ekki fúkkalyfjunum að þakka heldur var þessi sjúkdómur í rénun áður en fúkkalyfin komu til sögunnar. Það er skiljanlegt að fúkkalyf séu notuð til að létta á einkennum þegar fólk er í lífshættu þótt ekki sé ljóst hversu áhrifarík þau eru í að fyrirbyggja alvarlega og sjaldgæfa sjúkdóma. Að öllu jöfnu ætti alls ekki að gefa þeim börnum sem fá streptokokkasýkingu í háls fúkkalyf. Nýlegar rannsóknir hafa sýnt að það eru sýklar sem valda hálssýkingu hjá 60% barna og að fúkkalyfin hafa engin áhrif á þá. Þetta mælir sterklega með því að menn skoði aðra valkosti þegar um háls- og eyrna-sýkingu er að ræða í börnum. Þar býður hómópatía upp á hagkvæma kosti.

Hómópatísk meðhöndlun smitsjúkdóma

Þegar fólk talar um árangur nútíma lyfja bendir það á að við lifum lengur en foreldrar okkar og afar og ömmur. Einnig bendir það á árangur lyfja gegn smitsjúkdómum sem felldu fólk í stórum stíl á liðnum öldum s.s. plágan, kólera, skarlatssótt, gula og taugaveiki.

Vísindamenn og sagnfræðingar eru sammála um að þetta séu hreinar goðsagnir. Vísindamenn benda á að það sé ekki eingöngu afleiðing nýrrar lyfjafræði að við lifum miklu lengur. Frekar stafi það af þeirri augljósu ástæðu að ungbarnadauði er ekki eins tíður og áður en það er afleiðing af bættu hreinlæti meðan á fæðingu stendur, betri næringu og bættri heilsugæslu, betri pípulögnum og hreinna vatni. Þrátt fyrir þetta hefur meðalaldur ekki hækkað svo mikið. Línurit sýna að hvítur maður sem náði fertugsaldri 1960 nær því að verða 71,9 ára meðan hvítur maður sem náði fertugsaldri 1920 varð 69,9 ára. Hvítur maður sem náði fimmtugsaldri 1982 nær að verða 75,7 ára en hvítur maður sem náði 50 ára aldri 1912 varð 72,2 ára.

Nóbelverðlaunahafinn og örverufræðingurinn Rene Dubos sagði að lífsvon fullorðins manns væri ekki ólík því sem var fyrir nokkrum kynslóðum og ekki betri á þeim svæðum þar sem boðið er upp fullkomna læknis- og lyfjaþjónustu en í fátækari löndum.

Sagnfræðingar minna okkur á það að það er ekki lyfjum að þakka að lífshættulegir sjúkdómar á 15-19 öld gengu yfir. Fúkkalyf voru ekki einu sinni fáanleg fyrr en 1940-50 og engin önnur lyf komu að gagni í flestum þeim smitsóttarfaröldrum sem herjuðu í gamla daga. Dánartala vegna berkla, lungnabólgu, bronkítis, inflúenzu og kíghósta fór stiglækkandi áður en farið var að nota læknislyfin. Mikilvæg undantekning var lækkun dauðatölu vegna lömunarveiki eftir að Poliosprautuefnið kom til sögunnar.

Hómópatískar remedíur unnu sér hylli í Bandaríkjunum sem og Evrópu vegna árangurs í meðhöndlun smitsóttarfaraldra sem geisuðu á 19. öld. Tölur sem birtar voru árið 1900 um samanburð á hlutfalli dauðsfalla í sjúklingahópi hómópata annars vegar og lækna hinsvegar sýna að af 100 manns í hómópatísku sjúkrahúsi dó aðeins einn, en átta í hinum sjúkrahúsunum.

Árið 1849 staðfesti hómópati í Cincinatti að af 1000 kólerusjúklingum höfðu 3% dáið. Til að staðfesta niðurstöðurnar voru nöfn og heimilisföng þeirra sem létust og hinna sem lifðu birt í blöðum. Dauðatala kólerusjúklinga sem fengu læknislyf var almennt 40-70%.

Sá árangur sem varð í meðhöndlun gulu með hómópatíu var svo áhrifamikill að bandaríska heilbrigðisráðið gaf út skýrslu um lyf sem notuð voru og þar voru nefndar fáeinar hómópatískar remedíur þrátt fyrir þá staðreynd að í ráðinu sátu eingöngu læknar sem höfðu enga trú á hómópatíu.

Velgengni hómópatíunnar í meðhöndlun nútíma sýkinga er sambærileg árangri hennar í meðhöndlun smitsjúkdóma á 19. öldinni. Það er almennt vitað að hómópatískir meðhöndlarar nota aldrei fúkkalyf eða önnur þekkt lyf sem gefin eru gegn smit-sjúkdómum. Það er mikils virði að hafa valkost eins og hómópatíuna sem virkar vel.

Hómópatinn Randall Neustaeder frá Kaliforníu segir að auðvelt sé að bæta bráðaeyrnasýkingu með remedíum og nefnir Belladonna, Chamomilla, Pulsatilla, Ferrum Phos og Hepar Sulphur sem algengar remedíur í slíkum tilfellum.

Hafi barn fengið fúkkalyf og fær endurteknar eyrnasýkingar tekur hómópatísk meðferð yfirleitt lengri tíma en nær samt árangri. Neustaedter fullyrðir að til þess að bæta eyrnasýkingu þurfi að gefa barni remedíu sem tekur allt með í dæmið; einkennin sem eru til staðar og þau sem finnast í fjölskyldusögunni sem og heildræna mynd barnsins. Þótt foreldrar geti hjálpað barni í bráðasýkingu er mælt með að börnin fái meðhöndlun hjá lærðum hómópata til að vinna á krónísku ástandi þeirra.

Hómópatar hafa einnig náð góðum árangri gegn öðrum bakteríusýkingum. Hálssýking er yfirleitt meðhöndluð með Belladonna, Arsenicum, Rhus Tox, Mercurius, Hepar Sulphur, Lachesis, Apis eða Phytolacca. Gegn graftarkýlum sem oft eru afleiðing bakteríusýkingar má nota Belladonna, Hepar Sulphur, Silica, Arsenicum eða Lachesis og gegn fituhnúðum (styes), sem eru yfirleitt afleiðing staphylokokkasýkingar er rétt að beita Pulsatilla, Hepar Sulphur, Apis, Graphities og Staphisagria.

Hómópatísk meðhöndlun vírussýkinga

Læknislyf létta á einkennum bakteríusýkinga; en þrátt fyrir það eru ekki til nein slík við flestum vírussýkingum. Þar sem hómópatískar remedíur hvetja varnarkerfi líkamans til dáða frekar en að ráðast gegn einstökum meinsemdum, hefur hómópatían upp á mikið að bjóða í meðhöndlun vírussjúkdóma.

Nýlegar rannsóknir á vírusum sem ráðast á kjúklingafóstur sýndu að 8 af 10 hómópatískum remedíum sem voru prófaðar höfðu vírusinn 50-100% í sér. Læknavísindin þekkja hins vegar aðeins fáein lyf sem hafa slíka mótvírusvirkni og ekkert þeirra er eins öruggt og hómópatísku remedíurnar.

Hómópatar meðhöndla mjög oft fólk sem þjáist af bráða- og krónískum vírussjúkdómum. Fólk með vírussýkingar í öndunar- og meltingarfærum og taugakerfi hafa náð jákvæðum árangri með því að nota hómópatískar remedíur. Stundum verður þessi árangur strax og stórkostlegur þótt í flestum tilfellum þokist fólk hægt en ákveðið til betri heilsu

Breski líffræðingurinn Richard Savage segir: „Þegar leitin snýst um að finna sérstök mótvírus efni sem eru laus við aukaverkanir má nota hómópatíu á árangursríkan hátt á fjóra vegu:
1) Sem fyrirbyggjandi til að laða fram vörn gegn sýkingum.
2) Sem meðhöndlun í bráðatilfellum til að draga úr lengd og alvarleika sjúkdómsins.
3) Til að byggja upp og endurnýja manneskjuna meðan á bata stendur.
4) Til að leiðrétta krónískar afleiðingar; að koma manneskjunni til heilsu.”

1) Fyrirbyggjandi
Hómópatar vita að remedíur þeirra geta fyrirbyggt og meðhöndlað mismunandi sýkingar. Ekki hafa verið gerðar nægilegar rannsóknir á áhrifamætti þeirra til að fyrirbyggja vírussjúkdóma þótt sannanir séu fyrir því að nota má remedíur til að fyrirbyggja aðra smitsjúkdóma. Hómópatískar remedíur má nota sem ónæmisvörn; til dæmis ein tafla af Meningokokkin 10c (hómópatísk samsetning Neisseria heilahimnubólgu).

Algengt var að hómópatar notuðu á 18. öld remedíur gegn því sem síðar kom í ljós að var bakteríu- eða vírussýking. Aconite og Ferrum Phos voru oft gefnar á fyrsta stigi fengi fólk hita og verki til að fyrirbyggja inflúenzu. Belladonna var algengasta remedían til að fyrirbyggja skarlatssótt og Camphora var aðal remedían til að fyrirbyggja kóleru. Virkni þessara remedía varð til þess að margir aðhylltust hómópatíu.

Hómópatar sjá að takist þeim vel upp við að uppræta bráða- og króníska sjúkdóma með remedíum verður fólk sterkara og heilbrigðara og verður ekki alvarlega veikt. Á 18. öld buðu mörg líftryggingafélög fólki, sem tók hómópatískar remedíur, lægri iðgjöld og hærri líftryggingu því sannanir voru fyrir því að það var heilbrigðara og lifði lengur en aðrir.

2) Meðhöndlun í bráðatilfellum
Annað sem hómópatían hefur umfram önnur meðferðarform í meðhöndlun vírussýkinga er að gefa má remedíu áður en raunveruleg greining hefur verið gerð. Það er vegna þess að hómópatar skrifa upp á summu einkenna og þá er ekki lífsnauðsynlegt að finna réttu remedíuna fyrir eitthvert eitt einkenni. Þar sem erfitt er að greina sumar vírussýkingar jafnvel með smásjárskoðun er oft hægt að hjálpa fólki með hómópatíu áður en greining hefur farið fram.

Fúkkalyf eru aðeins hjálpleg gegn ákveðnum bakteríusýkingum og þar sem vírussýkingar eru nokkuð algengar hjálpa læknislyf ekki mikið. Til samanburðar má geta þess að hómópatar hafa náð góðum árangri í meðhöndlun vírussýkinga s.s. hinu almenna kvefi, vírushósta, inflúensu, meltingarfærabólgum og lifrarbólgu/vírussýkingu.

Hómópatar nota Allium Cepa, Euphrasia, Natrum Mur, eða aðrar sérvaldar remedíur gegn hefðbundnu kvefi, Aconite, Belladonna, Bryonia, Phosphorus eru m.a. hjálplegar í meðhöndlun vírussýkinga í öndunarfærum.

Inflúensa er afleiðing vírussýkingar og einnig ástand sem auðvelt er að meðhöndla með hómópatíu. Það er nauðsynlegt að finna remedíu fyrir hvern og einn en þrátt fyrir það eru líka til remedíur sem hjálpa í ákveðnum tilfellum. Oscillococcinum er remedía sem hómópötum þykir ákaflega árangursrík í meðhöndlun flensu. Framleiðandi hennar, Boiron Laboratories of Lyon í Frakklandi segir hana virka gegn flensu í 80-90% tilfella sé hún tekin innan 48 tíma eftir að fólk fær einkennin. Árangur hennar er svo vel kunnur í Frakklandi að hún er mest notaða remedían gegn flensu í því landi. Oscillococcinum er unnin úr hjarta og lifur andarinnar. Rannsóknir á Mayo Clinic sýndu að kjúklingasúpa hefði mótvírusvirkni. Þar sem súpan er einfaldlega seyði unnið úr líffærum kjúklingsins gæti virkni Oscillococcinum falist í því að hún er unnin úr seyði líffæra andarinnar.

Ben Hole, læknir og hómópati í Washington segir: Oscillococcinum er dásamlega árangursrík remedía en gerist það hinsvegar að hún virki ekki eða fáist ekki má nota aðrar remedíur með jafngóðum árangri séu þær gefnar einstaklingnum eftir gerð hans og upplagi. Aðrar algengar remedíur gegn flensu eru Gelsemium, Bryonia, Rhus Tox og Eupatorium perfoliatum.

3) Uppbygging og endurnýjun meðan á bata stendur
Þrátt fyrir að læknislyf bjóði litla hjálp gegn nýlegri eða langvarandi vírussýkingu hafa hómópatar uppgötvað að remedíur geta létt einkenni mismunandi krónískra vírussýkinga s.s. herpes simplex, herpes zoster, Epstein-Barr vírus og vörtur. Ekki er hægt að fullyrða að hómópatískar remedíur vinni á þessum vírussýkingum þar sem vírusinn er talinn vera í líkamanum allt lífið en hómópatar hafa séð að skjólstæðingar þeirra fá í miklu minna mæli alvarlegar sýkingar eða önnur einkenni í langan tíma.

Nálgun hómópatíunnar til að meðhöndla öll þessi mein felur í sér nákvæma skoðun á einkennum hvers og eins því að það er engin ein remedía til gegn einum ákveðnum sjúkdómi.

4) Leiðrétting krónískra afleiðinga
Eftir vírussýkingu (jafnvel bakteríu) finnst fólki oft að það sé ekki með sjálfu sér í langan tíma. Almennt er þá skrifað upp á remedíu fyrir einstaklinginn. Ef hún virkar ekki hjálpa hómópatar fólki til að ná aftur fullri heilsu með ákveðinni remedíu sem inniheldur þann vírus sem sýkti viðkomandi í upphafi. Varicella (hlaupabóluvírusinn) er almennt gefinn í remedíu vegna einkenna sem loða við eftir hlaupabólu og ristil og Parotidinum (hettusóttarvírusinn) eftir hettusótt.

_____________________________________________________________________
Heimildir
1. Rene Dubos, Mirage of Health , San Francisco: Harper and Row, 1959, 93-94.
2. Marc Lappe’, When Antibiotics Fail , Berkeley: North Atlantic, 1986, xii.
3. William Crook, The Yeast Connection , New York: Vintage, 1986.
4. Lappe’, xiii.
5. Lappe’, xvii.
6. R. Cave, editor. Those Overworked Miracle Drugs, Newsweek , August 17, 1981, 63.
7. R.B. Sack, Prophylactic Antibiotics? The Individual Versus the Community, New England Journal of Medicine , 300, 1979, 1107-1108.
8. Claude Bernard, An Introduction to the Study of Experimental Medicine , New York: Dover, 1957 (originally written in 1865), 160-163.
9. Jonas Salk, Mandala Holistic Health Conference, San Diego, September, 1976. Proceedings published in Journal of Holistic Health , 1976.
10. F.L. Buchem, Therapy of Acute Otitis Media: Myringotomy, Antibiotics, or Neither? A Double-Blind Study in Children, Lancet , 883, October 24, 1981.
11. J. Thomsen, Penicillin and Acute Ototis Media: Short and Long-term Results, Annals of Otolology, Rhinology, and Laryngology. Supplement. 68:271, 1980.
12. E.M Mandel, et.al., Effifacy of Amoxicillin with and without Decongestant–Antihistamine for Otitis Media with Effusion in Children, New England Journal of Medicine , 316:8, February 19, 1987, 432-437.
13. Buchem.
14. Randall Neustaedter, Management of Otitis Media with Effusion in Homeopathic Practice, Journal of the American Institute of Homeopathy , 79(3-4)87-99, 133-140, September- December, 1986.
15. M. Diamant, Abuse and Timing of Use of Antibiotics inAcute Otitis Media, Archives of Otolaryngology , 100:226, 1974.
16. D. Kilby, Grommets and Glue Ears: Two Year Results, Journal of Laryngology and Otology , 86:105, 1972. M.J.K.M. Brown, Grommets and Glue ear: A Five-year Followup of a Controlled Trial, Journal of Social Medicine , 71:353, 1978. T. Lildholdt, ventilation Tubes in Secretory Otitis Media, Acta Otolaryngology . Supplement. 398:1, 1983.
17. Bisno, 1983. M. Land, Acute Rheumatic Fever: A Vanishing Disease in Suburbia, JAMA , 249:895-898, 1983.
18. Pediatricians Urge Confirmatory Test for Suspected Strep Throat, Medical World News , January 12, 1987, 42.
19. Alan L. Bisno, Where Has All the Rheumatic Fever Gone? Clinical Pediatrics , December, 1983, 804-805.
20. A. Gastanaduy, Failure of Penicillin to Eradicate Group A Streptococci During an Outbreak of Pharyngitis, Lancet , 8193:498- 502, 1980. E. Kaplan, The Role of the Carrier in Treatment Failures After Antibiotic Therapy for Group A Streptococci in the Upper Respiratory Tract, Journal of Laboratory and Clinical Medicine , 98:326-335, 1981.
21. Alan L. Bisno, The Concept of Rheumatogenic and Non-rheumatogenic Group A Stregtococci , in Red: Streptococcal Diseases and the Immune Response , New York: Academic Press, 1980, 789-803. Alan L. Bisno, Streptococcal Infections that Fail to Cause Recurrences of Rheumatic Fever, Journal of Infectious Disease , 136:278-285, 1977.
22. A. George Veasy, et.al., Resurgence of Acute Rheumatic Fever in the Intermountain Area of the United States, New England Journal of Medicine , 316,8, February 19, 1987, 421-426.
23. Health Facts , 12, 96, May, 1987, 2.
24. Rene Dubos, Mirage of Health , New York: Harper and Row, 1959. Thomas McKeown, The Role of Medicine , Princeton: Princeton University, 1979.
25. Vital Statistics of the United States, 1982 , Life Tables, volume II, section 6, Hyattsville, Md.: National Center for Health Statistics, 13.
26. Rene Dubos, Man Adapting , New Haven: Yale University Press, 1965, 346.
27. Thomas L. Bradford, The Logic of Figures or Comparative Results of Homoeopathic and Others Treatments , Philadelphia: Boericke and Tafel, 1900.
28. Ibid. , 68.
29. Harris L. Coulter, Divided Legacy: The Conflict Between Homoeopathy and the American Medical Association , Berkeley: North Atlantic, 1973, 302.
30. Neustaedter, 87.
31. L.M. Singh and Girish Gupa, Antiviral Efficacy of Homoeopathic Drugs Against Animal Viruses, British Homoeopathic Journal , 74(3):168-174, July, 1985.
32. Richard Savage, Homoeopathy: When No Effective Alternative, British Homoeopathic Journal , 73(2):75-83, April, 1984.
33. Sesenta mil Brasilenos se Vuelcan en Farmacias Homeopaticas: Cunde la Meningitis, (front page headline), Excelsior , July 29, 1974.
34. Transactions of the New York State Homoeopathic Medical Society , 1867, 57-59.
35. Report of Life Insurance Committee, Transactions of the American Institute of Homoeopathy , 1897, 53-58; 1898, 81-90.