Heilataugar á tánum

Heilataugar á tánum – hluti af Höfuðbeina- og spjaldhryggjar – svæðameðferð

Höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð og svæðameðferðir passa mjög vel saman. Það hefur Dr. Martine Faure- Alderson sýnt og sannað sl. 35 ár, jafnframt því sem hún hefur þróað nýjar aðferðir og svæði sem gera það mögulegt að nota höfuðbeina- og spjaldhryggjaraðferðarfræði í svæðameðferð. Þessar viðbætur við svæðameðferð fela m.a. í sér meðhöndlun ýmissa heilasvæða, t.d. randkerfis, stúku, undirstúku, heilastofns og fleiri svæða.

Mjög svo áhugaverður hluti höfuðbeina- og spjaldhryggjarsvæðameðferðarinnar er kortlagning Martine Faure-Alderson  á svæðum heilatauganna 12.

Til kynningar á námskeiðum Martine, sem verða haldin í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal, 19. – 24. september 2008, höfum við valið fjórar mikilvægar heilataugar, til að skoða nánar hlutverk þeirra og hvernig svæðin eru notuð með tilliti til þeirra.

page63_1

Tap lyktarskyns
Fjöldi fólks upplifir að missa lyktarskynið tímabundið og sumir allt til æviloka. Fyrir matgæðinga er það mikil fötlun þar sem lyktarskynið er stór hluti þess að upplifa bragð. Það geta verið margar ástæður fyrir tapi lyktarskyns. Lyf, sérstaklega penicillin, geta verið orsökin eða sýking. Einnig geta höfuðbeinavandamál haft áhrif á lyktarskynið, því höfuðbeinin hafa árhif á lyktartaugina. Hvort sem orsökin er tap lyktarskyns, eða minnkað lyktaskyn, er mikilvægt að lyktartauginni sé einnig sinnt í meðhöndluninni.

Lyktartaugin – N. olfactorius – I Heilataug
Líffærafræði: Skyntaug.  Eiginlega er n. olfactorius ekki „alvöru“ taug, heldur framlenging þess hluta heilans sem endar í lyktarþekjufrumum í nefinu. Tveir tugir smáknippa  með ómýldum skyntaugafrumum liggja frá lyktarfrumum í nefi.  Þróunarlega séð er lyktartaugin tengd við hina “frumstæðu” hluta heilans, m.a. randkerfið. Það er ástæða þess að hin daufasta angan getur haft áhrif á tilfinningarnar og kallað fram gamlar minningar. Lykt er einu skynáhrifin sem hægt er að finna án þess að fara í gegnum stúku og eru tempruð af henni  Taugarnar ganga í gegnum síuþynnu sáldbeins (ethmoid) og sameinast í taugar sem liggja að lyktarsvæði heilabarkar. Svæðið: Svæði Martine Faure – Alderson fyrir n. olfactorius er  yst á annarri tá iljarmegin (plantart). (Sjá mynd).

Meðhöndlun á tannagnístan (svæðameðferð eða gómur)
Að geta meðhöndlað þrenndartaugina er ef til vill eins áhrifaríkt og að nota góm – og mun skemmtilegra! Þrenndartaugin er áhrifaríkur staður til að meðhöndla kjálkaspennu, sem smám saman er að verða faraldur. Viðvarandi spenna í kjálka getur ennfremur verið ein orsaka þrenndartaugabólgu, en við meðhöndlun hennar næst betri árangur, ef maður tekur þrenndartaugasvæðið líka til meðferðar.
Þrenndartaugin – N. Trigeminus – V Heilataug
Líffærafræði: Þrenndartaugin er stærst heilatauganna. Í trigeminale taugahnoðunni, sem liggur rétt fyrir ofan og við kjálkaliðinn, deilist taugin í þrjár greinar; augngrein sem liggur um enni/nef/auga/tárakirtla, efri kjálkagrein (maxillaris) sem liggur um efri góm/kinn/tennur/varir og neðri kjálkagrein (mandibularis) sem liggur um tennur/varir/neðrigóm/tungu. N. trigeminus er skyntaug andlits og flytur upplýsingar um ástand, snertingu, sársauka og hitastig frá nánast öllu andlitinu og augum. Þar fyrir utan inniheldur taugin hreyfiþræði sem m.a. ítauga tyggivöðvann. Svæði: Svæðið fyrir n. trigeminus er á miðkjúku þriðju táar iljarmegin (plantart), (Sjá mynd).

Stíflaðir munnvatnskirtlar
Stíflaða munnvatnskirtla, sem oftast orsakast af stein- eða bandvefsmyndun, er árangursríkt að meðhöndla með því að nudda svæðin fyrir munnvatnskirtlana, bæði fyrir framan kjálkaliðinn og undir neðri kjálka. Að meðhöndla andlitstaugina, sem ítaugar munnvatnskirtlana, gerir meðferðina árangursríkari. Vandamál í tárakirtlum og bragðlaukum á tungu eru einnig meðhöndluð í gegnum andlitstaugina.

page63_2

Andlitslömun
Við lömun taugarinnar öðru megin, sem getur komið fyrir eftir heilablæðingu eða sýkingu (m.a. Borreliosis sem smitast frá tegund blóðmaurs ( (Ixodes ricinus) sjá mynd), sést dæmigerð sjúkdómsmynd með lömun öðru megin í andlitinu. Munnvikið er slappt, ekki er hægt að loka auganu og sjúklingurinn getur hvorki brosað né hrukkað ennið. Andlitið verður skakkt vegna togs frá vöðvum á heilbrigðu hliðinni.

Andlitstaugin – N. facialis – VII Heilataug
Líffærafræði: N. facialis er blönduð, kjarnar hennar eru í brú, hún er hreyfitaug andlits, hún ítaugar alla svipbrigðisvöðvana og það liggja hreyfitaugaþræðir til tárakirtla og neðri munnvatnskirtla. Skynhluti taugarinnar flytur boð frá bragðlaukum tungunnar (fremri hluta).
Svæði: Iljahluti ystu kjúku fjórðu táar. (Sjá mynd).

Allsherjartaugin
Vagustaugin er “allsherjar” heilataugin og hana ætti að meðhöndla við hverja einustu svæðameðferð. Með því að meðhöndla vagustaugina meðhöndlar maður flest innri líffærin. N. vagus má meðhöndla á mörgum stöðum á fætinum. Í höfuðbeina- og spjaldhryggjar-svæðameðferð lærum við að meðhöndla taugina við upptök hennar í heilanum.
Það eru einnig tengsl á milli n. vagus og eyra, í gegnum áhugaverðan viðbragðsboga, sem tengir ytra eyrað við hálsinn svo að örvun í hlust getur framkallað hósta. Þetta sést sérstaklega vel þegar verið er að skoða smábörn hjá háls-, nef- og eyrnalæknum. Skaði á n. vagus getur haft áhrif á röddina svo að hún verður hás.

N. vagus – X Heilataug
Líffærafræði: Vagustaugin, sem er blönduð, er einnig kölluð flökkutaug og er hún sú heilataug sem víðast fer. Að auki er taugin sú flóknasta hvað varðar samsetningu taugaþráða. Kjarnar taugarinnar eru í mænukylfu. Taugin fer niður hálsinn og í gegn um brjóst og kviðarhol. Parasympatískir taugaþræðir ítauga hjarta, lungu, bris, lifur, milta nýru, nýrnahettur, slétta vöðva og kirtla í vélinda, í meltingarvegi að þverristli og barka og berkjur í lungum. Þar fyrir utan ítauga hreyfiþræðir n. vagus vöðva í koki og hálsi, og skyntaugaþræði í hlust og hljóðhimnu. Skyntaugaþræðir liggja frá þessum sömu líffærum til mænukylfu. Svæði: Martine Faure-Alderson meðhöndlar upptök n. vagus á iljahluta litlutáar yst á tánni (sjá mynd).

page63_3

Hver er manneskjan á bak við höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð í svæðameðferð?
Hún er einn virtasti og best menntaði heildræni meðferðaraðilinn í Evrópu og það er litið á hana sem einn af frumherjum svæðameðferðar.
Dr. Martine Faure-Alderson er frönsk að uppruna en hefur lengi verið búsett í Englandi.
Martine Faure-Alderson útskrifaðist frá The Naturopathic and Osteopathic College í London 1968 og hefur ennfremur menntað sig í höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð, grasalækningum, nálastungum og hómópatíu í Englandi og Argentínu.
Svæði á fótum fyrir ofangreindar heilataugar.
Árið 1980 stofnaði hún samband svæða- og viðbragðsfræðinga í Frakklandi (ARTFFA) og er hún enn forseti samtakanna.

page63_4

Martine Faure-Alderson er einn af reyndustu kennurunum í faginu. Hún hefur rekið svæðanuddskóla í París frá 1974 og haldið fyrirlestra og kennt um víða veröld í 35 ár.

Hún ætlar nú enn á ný að koma til Íslands og miðla okkur af þekkingu sinni. Hún kennir á ensku en námskeiðin verða þýdd yfir á íslensku eftir bestu getu. Námskeiðin sem hún heldur að þessu sinni eru þrjú talsins. Áætluð námskeiðsgjöld eru um 35.000 krónur fyrir hvert námskeið, veittur er afsláttur ef fleiri en eitt námskeið er tekið.
Til að auka skilning á þessari nýju aðferð, og verða fljótari að tileinka sér hana, er gott að  hafa tekið kynningarnámskeið í höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð.

Látið þetta einstaka tækifæri ekki fram hjá ykkur fara. Nánari upplýsingar veita Guðbjörg Hafsteinsdóttir, í síma 821-2627 (omgh@isl.is), og Hallfríður Pálsdóttir, í síma 869-4046 (casagretto@athygli.is), og taka þær jafnframt niður skráningar. Farið er fram á staðfestingargjald, að upphæð 20.000 krónur, sem greiðast þarf fyrir 3 september nk.