Af hverju græðari? – Af hverju skráður græðari?

Af hverju græðari? – Af hverju skráður græðari?

Upphafið
Græðarar hafa frá því að þeir byrjuðu að starfa hér á landi aldrei haft trygga lagalega stöðu. Lög sem notast hefur verið við fram að þessu eru í læknalögum, svokölluð skottulæknagrein þar sem fjallað er um að skottulækningar, hverskonar, séu bannaðar og þeir einir megi kalla sig lækni sem til þess hafi skilgreinda menntun, en ekki er skilgreint hvað skottulækningar eru.

Þar sem lagaleg staða græðara hefur verið óviss, hafa neytendur átt erfitt með að meta þá þjónustu sem í boði er, því að enginn lagalegur munur er gerður á þeim sem tekið hafa stutt kynningarnámskeið eða þeim sem lokið hafa prófi frá viðurkenndum skólum. Hver sem er getur í raun kallað sig græðara en frjálsu fagfélögin hafa verið eini aðilinn sem staðið hefur vörð um fagmennsku og góða menntun. Hinum almenna neytanda er hinsvegar tamt að leita álits hjá opinberum aðilum þegar kemur að heilsu og því miður verður að segjast eins og er, að það álit sem gefið hefur verið, hefur oftast lýst vanþekkingu og jafnvel vanvirðu.

Í fyrstu var mikill áhugi fyrir því að fá löggildingu á þessar greinar en við nánari athugun var fallið frá því. Ástæðan fyrir þessum sinnaskiptum var fyrst og fremst tilhneiging yfirvalda til að breyta starfssviði þeirra greina sem fyrir voru í kerfinu. Menn sáu fyrir sér að þeir gætu fljótelga misst vald yfir fagi sínu. Því var valin sú leið að hafna löggildingu en fá lagalegan tilverurétt á eigin forsendum, þar sem að forsendur hefðbundinnar læknisfræði annarsvegar og græðara hinsvegar eru mjög ólíkar.

Aðdragandi laga um starfsemi græðara
Mál græðara var kynnt fyrir nokkrum þingmönnum sem varð til þess að pólitísk samstaða myndaðist um að leggja fram þingsályktunartillögu um stöðu óhefðbundinna lækninga á Íslandi. Tillagan var mjög ítarleg og átti að kanna umfang starfseminnar, stöðu og mögulega veitingu réttinda og niðurfellingar virðisaukaskatts. Heilbrigðisráðherra sýndi þessu máli mikinn áhuga og ákvað að sett yrði á fót nefnd sem ynni samkvæmt þingsályktunartillögunni og endaði starf sitt með drögum að lögum. Tveir fulltrúar BÍG voru skipaðir í átta manna nefnd sem tók til starfa í febrúar 2003. Formaður nefndarinnar var læknir en einnig áttu sæti í henni yfirlögfræðingur heilbrigðisráðuneytis, yfirlyfjafræðingur heilbrigðisráðuneytis, ritari frá ráðuneytinu, hjúkrunarfræðingur og mannfræðingur auk tveggja græðara.

Fyrstu vandkvæðin sem nefndin stóð frammi fyrir var að finna orð yfir starfsemina og samheiti yfir þá sem starfa innan þessa geira. Orðið græðari var síðan orð sem allir gátu sætt sig við og er nú talað um heilsutengda þjónustu græðara.

Það kom í hlut græðara að gera úttekt á þeim aðferðum sem stundaðar eru hér á landi og líka öllum þeim aðferðum sem líklegt er að komi til landsins í framtíðinni og stundaðar eru erlendis.

Ákveðið var í nefndinni að gera ekki könnun á notkun almennings á óhefðbundnum lækningum og útbreiðslu þar sem landlæknisembættið hefur gert könnnun um margra ára skeið þar sem m.a. er spurt í þessa veru. Þótt margt megi athuga við könnunina sýndi hún greinilega aukningu á notkun þessara aðferða eins og kannanir sem gerðar hafa verið í öðrum löndum hafa sýnt.

Nefndin kom sér saman um að ákjósanlegast væri að samin yrðu ný lög um starfsemi græðara ásamt reglugerð sem kvæði nánar á um fagfélög og menntun. Áhersla var lögð á að hafa lögin sem almennust til að byrja með, þar sem græðarar þyrftu svigrúm til að máta sig í nýju starfsumhverfi. Ákveðið var að reyna að samræma sem best sjónarmið hefðbundinna og óhefðbundinna í nýjum lögum og að hafa hagsmuni neytanda að leiðarljósi.

Landlæknisembættið sýndi því mikinn áhuga að fá þennan málaflokk undir sitt embætti en græðarar voru því mjög mótfallnir þar sem að þar er engin þekking á málefnum græðara. Græðarar sóttu fast að hafa umsjón með sínum málum sjálfir þar sem þekkingin væri til staðar.

Fljótlega kom fram tillaga um frjálst skráningarkerfi græðara. Þeir sem væru skráðir, fengju auðveldari aðföng, virðisaukaskatt felldan niður, aðgengi að sjúklingum á sjúkrastofnunum og aukið traust heilbrigðisyfirvalda. Skilyrði fyrir skráningu yrði lágmarksmenntun, aðild að fagfélagi sem ráðuneytið viðurkennir samkvæmt reglugerð þar að lútandi og tryggingar í gildi. BÍG sæi um skráningu og eftirlit en heilbrigðisráðuneyti gæfi fagfélögum leyfi til að skrá félagsmenn í gegnum BÍG. Skrá þessi yrði síðan aðgengileg á vefsíðu Heilbrigðisráðuneytis og Bandalagsins.

Þegar þessar hugmyndir voru lauslega mótaðar voru allir hagsmunaaðilar kallaðir fyrir nefndina til að veita umsögn. Fulltrúar heilbrigðisstétta, háskóla og sjúkrastofnana komu fyrir nefndina og gáfu álit. Í stuttu máli kláraði nefndin störf sín og lagði fyrir ráðherra og voru lög um græðara og starfsemi þeirra samþykkt á vorþingi 2005.

Staða græðara í dag
Núna er staða græðara þannig að þeim stendur til boða að skrá sig í hið nýja skráningarkerfi og þurfa til þess að vera í fagfélagi sem uppfyllir skilyrði ráðherra og hafa tryggingar í gildi. Þeir munu ekki koma til með að hafa leyfi til að sjúkdómsgreina líkt og læknar eða segjast munu lækna fólk, einnig munu þeir ekki hafa leyfi til að koma í veg fyrir læknismeðferð sé hennar þörf. Neytendur hafa rétt á að fá til sín græðara á sjúkrastofnun til umönnunar svo framarlega að viðkomandi sé ekki með smitsjúkdóm sem falli undir sóttvarnarlög og sjúkdóma sem nefndir eru alvarlegir. Í skilgreiningu með lögum segir einnig að græðarar hafi rétt á að meðhöndla alla sé tilgangurinn að efla heilunarmátt líkamans.

Eftir sem áður getur hver sem er kallað sig græðara en auðvelt aðgengi á netinu að þeim sem eru á skrá mun fljótt greina á milli þeirra sem hlotið hafa viðunandi menntun og þeirra sem hafa ekki orðið hennar aðnjótandi.
Þetta gerir því neytendum auðveldara fyrir að afla sér upplýsinga um starfsemi græðara og hverjir veiti ábyrga þjónustu.