Að bæta líðan og efla heilsu

Mbl, laugardaginn 7. maí,  2005
Heilsa | Heilsumiðstöðin Heilsuhvoll heldur opið hús

Að bæta líðan og efla heilsu

 

page76_1

Dagmar Jóhanna Eiríksdóttir er fædd og uppalin í Reykjavík. Hún er með próf frá Bændaskólanum á Hvanneyri og Garðyrkjuskólanum í Hveragerði. Árið 1995 lauk hún fjögurra ára námi frá The College of Oriental medicine í Sussex og var síðan einn vetur í London School of Acupuncture þar sem hún lærði nálastungumeðhöndlun á börnum. Dagmar býr á Vatnsleysuströnd með manni sínum, Halldóri Hafdal Halldórssyni trillukarli, og börnum þeirra Hólmfríði Kríu og Katli Huga.

Heilsumiðstöðin Heilsuhvoll heldur opið hús á morgun, sunnudag, milli klukkan 14-17 í nýju húsnæði við Borgartún 33. Dagmar Eiríksdóttir er meðal félaga Heilsuhvols.

Hvað er Heilsuhvoll?
Á Heilsuhvoli eru samankomnir 18 meðferðaraðilar sem hafa allir lokið fullu námi og eru með tilskilin réttindi í sínu fagi. Þarna er mikil þekking og viska saman komin og er markmið okkar að bæta líðan og efla heilsu þeirra sem til okkar leita með heilsunuddi, hómópatíu, Alexandertækni, höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð, nálastungum, ilmkjarnaolíum, osteópatíu, sjúkranuddi, snyrtifræði og svæða- og viðbragðsfræði.

Hvaða þýðingu hafa nýsamþykkt lög um starfsemi græðara?
Lögin eru mikið fagnaðarefni fyrir alla græðara, en græðarar eru þeir sem starfa við heilbrigðisþjónustu utan hins almenna heilbrigðiskerfis. Þetta er viðurkenning af hálfu hins opinbera en hingað til hefur lagaleg staða græðara verið óviss og neytendur átt erfitt með að meta þjónustu þeirra þar sem enginn lagalegur munur hefur verið gerður á þeim sem tekið hafa stutt kynningarnámskeið eða þeim sem hafa lokið margra ára námi frá viðurkenndum skólum. Ég fagna þessu sérstaklega fyrir hönd okkar nálastungumeðhöndlara því hingað til hefur nánast hver sem er getað notað nálastungur í sinni meðhöndlun, og hefur verið erfitt að standa vörð um fagmennsku og góða menntun. Við höfum unnið að því að tryggja fagmennsku innan okkar faghópa, til dæmis með stofnun Nálastungufélags Íslands fyrir tveimur árum. En lögin stuðla enn frekar að því að tryggja öryggi þeirra sem nýta sér þjónustu græðara og gæði þjónustunnar sem veitt er.

Hvernig getur fólk leitað sér þekkingar á óhefðbundnum meðferðarúrræðum?
Til dæmis á heimasíðu okkar, heilsuhvoll.is, þar sem finna má fróðleik um þær meðferðir sem boðið er upp á ásamt forvitnilegum greinum. Við erum einnig með símatíma virka daga milli kl. 13-15.

Hversu algengt er að fólk leiti sér óhefðbundinna meðferðarúrræða?
Ég heyrði því fleygt að um 24% þjóðarinnar leiti sér nú óhefðbundinnar meðferðar, en fyrir tíu árum var það um 10%. Fólk vill bera ábyrgð á eigin heilsu og er að vakna til vitundar um alla þá möguleika sem hægt er að nýta sér til betra lífs.
Það er svo dásamlegt að úrvalið sem er í boði veitir öllum möguleika á að finna sér meðferð og meðferðaraðila við hæfi. Oft er líka gott að flétta saman fleiri en einni meðferð þannig að þær styðji hver aðra.