Alexandertækni – meðvitund um betri líkamsstöðu
Frederick Matthias Alexander
Alexandertækni á rætur sínar að rekja til Ástralíu þar sem leikari nokkur, Frederick Matthias Alexander (1869-1955), missti röddina í sífellu þegar hann var að vinna. Hann hafði farið víða milli lækna en enginn hafði fundið út hvað hrjáði hann.
Hann ákvað að leita sjálfur að lausn vandans, setti upp spegla í stofu sinni og byrjaði að skoða hvernig hann beitti hálsinum við leiklestur.
Alexander sá strax að mikil breyting varð á hálsvöðvum þegar hann hóf lesturinn. Hann reigði höfuðið aftur og ofan í búkinn og klemmdi þar með raddböndin. Við nánari athugun uppgötvaði hann að hann lyfti brjóskassanum, varð fattur og spenntist í mjóbaki auk þess sem hann varð stífur í fótunum og þrýsti tánum niður í gólfið. Allt þetta við einfaldan upplestur!
Þessari skoðun hélt hann áfram næstu 10 árin og rannsakaði hvernig hann beitti líkamanum við mismunandi aðstæður. Hann fann út að líkaminn virkar í raun eins og dóminó því þessi spenna, sem gerði það að verkum að hann missti röddina, hafði miklu víðtækari áhrif á líkamann í heild. Sömuleiðis spilaði andlega hliðin þarna inn í, t.d. stress, kvíði o.s.frv.
Vann fyrst með listafólki
Með þessi fræði fór hann til Englands um aldamótin og setti upp skóla. Alexander byrjaði að vinna með leikara og tónlistarfólk en þessir hópar æfa sig mjög mikið og endurtaka oft sömu hreyfingar t.d. við hljóðfærin. Þessar hreyfingar verða að vana og viðkomandi hættir að hugsa út í þær. Oft á tíðum áttar hann sig ekki á því að það eru einmitt þessar venjubundnu stellingar sem mynda óþarfa spennu og valda oft verkjum eftir smá tíma.
Rannsóknir hans vöktu mikla athygli og í framhaldinu tóku leiklistar- og tónlistarskólar fræðin inn í námið sem nauðsynlegt tæki til að læra á líkamann. Sömuleiðis nýttu þeir sér tæknina sem forvörn til að koma í veg fyrir meiðsl.
Enn þann dag í dag telja listaskólar um allan heim tæknina nauðsynlegan hluta af því námi sem þeir bjóða upp á. Hér á landi er Alexandertæknin kennd við Tónlistarskóla Reykjavíkur og var til langs tíma einnig kennd við Leiklistarskóla Íslands/Listaháskólann.
Tæknin er útbreiddust í Ástralíu, Ísrael og Englandi. Sömuleiðis eru skólar víða í Evrópu, Ástralíu og Ameríku. Í mörgum löndum hafa fagfélög verið mynduð og er hægt að kynna sér þau á heimasíðunni stat.org.uk.
Endurmenntun í líkamsbeitingu
Alexandertæknin einskorðast þó ekki bara við list heldur nýtist hún fólki úr öllum áttum. Í dag er kannski auðveldast að taka dæmi um þann sem vinnur við tölvu allan daginn en þegar við setjumst við tölvuna eru hreyfingar okkar oftast það vanabundnar að við tökum ekki eftir þeim. Í því sambandi er ekki óalgengt að eymsli komi upp í herðum, mjóbaki og hálsi auk þess sem margir kannast við svokallaða “tölvumús” í úlnlið.
Það er ekki oft sem við stöldrum við og skoðum hvernig við hreyfum okkur. Yfirleitt erum við lítið meðvituð um það hvernig við hreyfum okkur og eigum jafnvel erfitt með að orða það. Ef ég spyr: “Hvernig situr þú núna?” er líklegt svar: “Bara eins og venjulega”. Að sitja í stól er orðinn svo mikill vani að við þurfum ekki að hugsa um það þegar við setjumst niður eða stöndum upp. Hið sama má segja um það þegar við stingum lykli í skrána, setjum töskuna á öxlina o.s.frv. Þar af leiðandi höfum við heldur ekki hugmynd um að í þeirri stellingu sem við “rötum í “ er heilmikil yfirspenna á vöðvum.
Allar þessar pælingar eru nauðsynlegar þegar við lærum Alexandertækni en hún hefur það að markmiði að gera fólk meðvitað um líkama sinn. Til þess að það sé mögulegt er nauðsynlegt að skoða ávana þess og losa um þá og þar með um vöðvaspennu. Þetta er líkamsbeitingatækni þar sem hugurinn er nýttur til að losa um spennuna. Í raun er um að ræða endurmenntun í líkamsbeitingu sem byrjar á því að við stöldrum við og skoðum hvernig við notum líkamann í daglegu lífi. Síðan hefst endumenntunin.
Árangurinn hefur ekki einungis áhrif á líkamsstöðuna, heldur heldur alla líkamsstarfsemi sem leiðir til andlegs jafnvægis.
Frumstýring
Það mikilvægasta í byrjun er að losa um spennu í hálsi. Alexander kallar það Primary Control eða frumstýringu.
Frumstýringin gengur út á að hálsinn er hafður frjáls og höfuðið leitar upp (þó ekki með spennu) og látið vísa fram þannig að horft er beint af augum. Þá situr höfuðið rétt á hryggjarsúlunni, án þess að mynda spennu. Sömuleiðis er unnið með að lengja bakið og breikka það. Viðkomandi hugsar sér að hann noti meira pláss en ella og gefur eftir í mjóbaki og maga.
Þetta er kjarninn en bara byrjunin.
Hvernig er Alexandertæknin kennd?
Tæknin er kennd í einkatímum sem taka um 30 – 45 mín. Farið er yfir líkamsstöðu viðkomandi og unnið með frumstýringu þar sem skoðaðar eru daglegar hreyfingar, á stól, bekk, standandi, á bolta, allt eftir hvað hentar hverju sinni. Kennari leggur hendur létt á nemandann og leiðbeinir en togar ekki, hnykkir eða teygir.
Best er að vera í þægilegum fötum sem þrengja ekki að.
Hverjir læra Alexandertækni?
Eins og áður sagði þekktist tæknin fyrst og fremst í listageiranum til að byrja með en í dag er hún nýtt af mun breiðari hópi. Tæknin nýtist sem forvörn, t.d. með því að læra að beita sér rétt við námslestur, að sitja við tölvu o.s.fr. Þeir sem þjást af bak- eða hálseymslum, t.d. eftir slys eða lélega beitingu, nýta sér tæknina í aukni mæli til að létta á verkjum og breyta ávanastellingum. Íþróttafólk, sem vill bæta árangur sinn, finnur mikinn mun við að létta á óþarfa spennu og minnka þar með orkunotkun.
Þá nýtist Alexandertæknin þunguðum konum í auknu mæli, bæði fyrir og í fæðingu. Líkaminn tekur ótal breytingum á meðgöngunni – hann þyngist og jafnvægispunkturinn breytist stöðugt. Það er nauðsynlegt fyrir þungaðar konur að vera sér meðvitaðar um þetta og læra að breyta líkamsbeitingu sinni jafnóðum og þessar breytingar ganga yfir. Þá leiðir Alexandertæknin af sér bætta öndun sem nýtist ótrúlega vel í fæðingunni sjálfri.
Allir geta nýtt sér Alexandertæknina og ekki má gleyma að með líkamlegri meðvitund og vellíðan fylgir andlegi þátturinn með.