Unnið með himnur líkamans

23. ágú. 2004

Unnið með himnur líkamans

 

page79_1

Erla Ólafsdóttir er sjúkraþjálfari sem ásamt Birgi Hilmarssyni er í forsvari fyrir Upledgerstofnunina á Íslandi en samtökin standa fyrir kynningarnámskeiðum í höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð um allt land. „Dr. John Upledger er upphafsmaður höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferðar og þróaði hana út frá beina- og liðskekkjufræði. Við höfum sótt námskeið hjá honum í Flórída og einnig hérna heima.“

En í hverju felst meðferðin? „Við vinnum með himnukerfi líkamans. Við erum að losa um spennu, bólgur og samgróninga í himnukerfinu. Það eru himnur utan um allar frumur líkamans og þær safna í sig bólgum sem svo valda bæði andlegri og líkamlegri vanlíðan. Ef næst að slaka á himnunni fara hormónarnir að vinna betur og orkuflæðið jafnast um líkamann og hann á auðveldara með að losa sig við úrgangsefni. Fólk liggur fullklætt á bekk og meðferðin byggist fyrst og fremst á mjög léttri snertingu þar sem við erum að mæta þeirri spennu sem er í líkamanum og vefjunum. Við hlustum inn í líkamann og fylgjum því sem fer af stað þegar við mætum spennunni sem fyrir er. Upphaflega var unnið með himnurnar utan um miðtaugakerfið og mænuna en nú erum við að vinna með allar himnur líkamans. Þegar maður losar um himnurnar í miðtaugakerfinu er verið að fara mjög djúpt og þá er viðbúið að fólk upplifi tilfinningar sem það hefur bælt niður. Þetta getur því verið bæði andleg og líkamleg meðferð í senn.“
Kynningarnámskeiðin hafa tvíþættan tilgang, þar sem á þeim er bæði verið að kynna meðferðina fyrir fagfólki sem getur lært hana hjá stofnuninni og hins vegar fyrir almenningi. „Námskeiðin eru ætluð fagaðilum sem hafa hug á að kynna sér þetta meðferðarúrræði en þeir sem vilja læra slíka meðferð til að hjálpa sér og sínum geta líka notið góðs af því að koma á námskeiðin.“ Næsta námskeið verður í Reykjavík 3.og 4. september. Allar nánari upplýsingar er að finna á upledger.is.