Samuel Hahnemann mjúkur umbótasinni

page73_1

Samuel Hahnemann mjúkur umbótasinni

Friedrich Christian Samuel Hahnemann fæddist í Meissen við ána Elbu, þann 10. apríl 1755, ári fyrir sjö ára stríðið, og ólst upp í hinu stríðshrjáða Saxlandi. Faðir hans starfaði sem postulínsmálari. Hann vann fyrir fjölskyldunni í postulínsiðnaði héraðsins, þar sem hann hafði  hvorki góð laun né var metinn að verðleikum.
page73_2
Fæðingarstaður Hahnemanns í Meissen

1767-75 var Samuel, sem var greindur strákur, leyft að hefja nám án endurgjalds við  „Fürstenschule St. Afra“ í Meissen (Fürstenschule = Skóli sem furstinn stofnaði). Hann stóðst lokaprófin og fékk leyfi föður síns til þess að stunda læknanám í Leipzig. Hinn fátæki námsmaður hóf námið fullur áhuga og þar sem að hann hafði ekki efni á neinni afþreyingu náði hann skjótum árangri.  Hann stundaði nám í  Leipzig  á árunum 1775-1776. Árið 1777 flutist hann til Vínar og lauk námi í  Erlangen á árunum 1778-1779, og útskrifaðist þar. Árið 1780 starfaði Hahnemann sem læknir í Hettstedt. Árið 1781 lauk hann að auki lyfjafræðinámi í Dessau.
page73_3
Johanne Henriette Leopoldine Küchler (1764-1830), fyrri kona hans

Þegar Hahnemann var 26 ára, árið 1782,  giftist hann fyrri konu sinni, dóttur lyfsala frá  Dessau, og áttu þau saman ellefu börn. Hahnemann vann tímabundið sem fjölritari og þýðandi þó svo að starfið væri illa launað. Það var honum mögulegt þar sem hann gat lesið og skrifað arabísku, hebresku, grísku, latínu, frönsku og ensku.
Hann ferðaðist um landið og lét opinberlega skoðanir sínar í ljós og reis þannig upp gegn hinu erfiða ástandi í heilbrigðisgeiranum. Vegna yfirgripsmikillar bóklegrar þekkingar sinnar, vissi hann mikið um læknisfræðina í lok 18. aldar og einnig lyfjafræðina og efnafræðina. Hann sýndi því afburða þekkingu í þýðingum sínum þar sem að hann hafði að leiðarljósi einkunnarorð sín „Aude sapere“ – Þorið að vita.
page73_4
Inngangur suðurálmu, innri húsagarðs  „Sächsisches Landesgymnasium St. Afra“ í Meissen. Þar má sjá einkunnarorð Hahnemanns.

Árið  1789 lauk hinn eirðarlausi læknir ferðum sínum og snéri aftur til Leipzig. Í  bókinni „Materia medica“, sem er verk skosks lyfjafræðings William Cullens, uppgötvaði Hahnemann árið 1790 kenninguna um að börkur Kínatrésins (cinchona) gæti læknað malaríu, þar sem hann hefði bætandi áhrif á magann. Það var vegna eigin meltingarvandamála sem Hahnemann ákvað að prófa lyfið á sjálfum sér og lýsti hann tilrauninni í smáatriðum fyrir komandi kynslóðum.

„í rannsóknarskyni tók ég 4 quentchen (=1.67g, quentchen: gömul þýsk mælieining) af góðu  cinchona tvisvar sinnum á dag í nokkra daga. Fæturnir, fingurgómarnir o.s.frv. urður kaldir, ég varð syfjaður og þreyttur, þá byrjaði hjartað að slá hratt, púlsinn varð hraðari og sterkari, ég upplifði óþægilega hræðslutilfinningu, skjálfta (en nötraði ekki), þróttleysi í öllum útlimum, slátt í höfðinu og roða í kinnum. Þannig birtust öll algeng einkenni malaríu hvert á fætur öðru, en án sótthita sem venjulega fylgir sjúkdómnum. Einnig þau dæmigerðu einkenni sem eru svo algeng í malaríu, sljóleiki í skynjun, stífleiki í liðum, sérstaklega þó einkennileg dofatilfinning í beinhimnum allra beina líkamans. Öll þessi einkenni birtust. Þetta ástand varði í tvo til þrjá tíma í hvert skipti og kom aftur þegar ég endurtók skammtinn, en annars ekki. Ég hætti að taka lyfið og var heilbrigður.“

Æstur í að læra meira, prófaði Hahnemann smám saman meira en 100 lyf og remedíur, fyrst á sjálfum sér, síðan einnig á eiginkonu sinni, á börnunum sínum ellefu og á vinum, áður en hann með góðum árangri notaði remedíurnar til að meðhöndla sjúklingna sína. Árið 1805 birti hann niðurstöðurnar á remedíurannsóknunum undir nafninu: „Fragmenta de viribus medicamentorum positivis in sano corpore observatis“.

Árið 1796 birti Hahnemann lækningalögmál hómópatíu í fyrsta skipti  og sagði við nemendur sína: „Líkið eftir, en líkið nákvæmlega eftir“. Hin svokallaða klassíska hómópatía heldur því fram að nákvæm eftirlíking á remedíuávísunum Hahnemanns sé hin eina sanna hómópatía.
Árið 1810 gaf Hahnemann út hið velþekkta verk sitt: „Organon der rationellen Heilkunde“ (Organon hin rökréttu vísindi lækninga) þar sem hann á áhrifaríkan og nákvæman hátt kynnir hómópatískar kenningar sínar. (Organon er komið úr grísku og þýðir: Verkfæri til hjálpar)

Árið 1811 er fyrsta bindi „Reine Arzneimittellehre“ (Ekta remedíu kennsla – „Materia Medica Pura“) gefið út og það síðasta árið 1821. Um sama leyti eða árið 1812 gerðist Hahnemann fyrirlesari við Leipzigháskóla og árið 1819 varð hann einkalæknir hertogans af Köthen-Anhalt. Hinn eirðarlausi tími er nú að baki ásamt  öllum faglegum, fjárhagslegum og persónulegum vandamálum hans. Hahnemann uppskar virðingu og velgengni en missti konu sína árið 1830.
page73_5
Melanie D’Hervilly (1802-1878), seinni kona Hahnemanns.

Árið  1835 giftist  Samuel Hahnemann í annað sinn og fylgdi konu sinni sem var 45 árum yngri en hann til  Parísar. Þar naut hann mikillar virðingar og  lést þar þann 2. júli árið1843. Um það bil 50 árum seinna var Hahnemann grafinn í Père Lachaise grafreitnum fyrir frægt fólk.
page73_6
Gröf Samuels Hahnemanns í  Père Lachaise grafreitnum.

Strax á dögum  Hahnemanns hafði lögmál hómópatíunnar  áunnið sér athygli og virðingu en vakti samt sem áður heitar umræður. Þessar deilur eiga sér stað enn í dag.  Þrátt fyrir  fjölda óvildarmanna hefur hómópatía lifað af  í meira en tvöhundruð ár og það er enn rétt  sem var rétt þá, eins og Hahnemann sagði í  Organon um listina að lækna: „Til þess að lækna nærfærnislega, hratt, á öruggan hátt og varanlega, notið í hverju sjúkdómstilfelli remedíu sem getur sjálf valdið svipuðum þjáningum sem henni er ætlað að lækna“.

Þessi ljúfi umbótasinni síns tíma hefur haldist furðulega nútímalegur og fullyrðingar hans eru í fullu gildi í dag. Það eru raunsannar skýringar á því. Hahnemann og nemendur hans unnu mjög aðferðafræðilega í hinum yfirgripsmiklu rannsóknum sínum. Þeir gerðu mjög nákvæma grein fyrir niðurstöðunum en slíkt var ekki algengt á þeim tímum. Þetta er líka ein ástæða þess að svo mikil virðing hefur verið borin fyrir hinum fyrsta hómópata  allt til dagsins í dag.

Fyrir utan rannsóknarvinnuna, voru það ferðalög Hahnemanns, innanlands sem utan, sem stuðluðu að hinum hómópatísku kenningum.
Hann sannaði einnig reynslu sína þegar hann barðist við sjúkdóma, svo sem taugaveiki og kóleru. Hann hafði þegar verið sannfærður um að kólerufaraldurinn árið 1831 hefði verið af völdum af örsmárra lifandi vera og ráðlagði sótthreinsunarmeðferð.

Samuel Hahnemann aðhylltist ekki einungis  milda og heildræna meðferð sem beinir athyglinni að sjálfsheilunarmætti líkamans – hinum innra lækni – sem miðpunkti meðferðarinnar, heldur var hann einnig upptekinn af  vandamálum varðandi þróun þéttbýlis og hreinlætismálum. Á fyrstu áratugum 19. aldar hafði hómópatía þegar náð fótfestu í mörgum löndum og skilað umtalsverðum árangri. Samuel Hahnemann lifði  nógu lengi til að sjá sumt af því.

Lögmál hómópatíunnar urðu útbreidd um allan heim. Innanlandssamtök, alþjóðleg samtök  og sambönd hómópata gefa út fagtímarit og lögmálið „Ähnliches heilt Ähnliches“ (líkt læknar líkt) er hluti mikilvægra meðferðarforma okkar tíma við minniháttar verkjum og krónískum sjúkdómum. Hugtökin þynning og styrking (potentiating) eru sem rauður þráður í hómópatískum kenningum og leiða enn til heitra umræðna.
Annað lögmál kenninga Hahnemanns sýndi ríka ábyrgðarkennd. Hahnemann hafði mjög snemma komist að því að skammtur af upprunalega efninu olli ýmsum einkennum remedíunnar. Alvarleg sjúkdómseinkenni gátu versnað, og eins brást líkaminn ekki alltaf nógu vel við.  Hið seinna gerðist aðallega þegar um remedíur úr steinefnum var að ræða. Hahnemann leysti þetta vandamál með því að þynna remedíurnar og lagaði þannig einstaklingsbundinn skammt remedíunnar að einstaklingsbundnum þörfum sjúklinga sinna. Með þynningunum, skóp hann remedíur sem ekki höfðu óæskilegar hliðarverkanir og kallaði þetta form lyfjanna  „Potenz“ (= potency) sem átti að skiljast sem styrkleiki.
Árið 1811 talar Samuel Hahnemann í fyrsta skipti opinberlega um „þynningu“ en það var ekki fyrr en löngu seinna eða árið 1827 sem hann talaði um „styrkleika“ (potentiating) í þessu sambandi. Það hversu seint Hahnemann talar um  hugtakið styrkleika, sýnir að hann rasaði ekki um ráð fram og það var ekki fyrr en að vel athuguðu máli sem að hann talaði opinberlega um þessi hugtök.
page73_7
Samuel Hahnemann árið 1829.

Við styrkingu á remedíunum uppgötvaði  Samuel Hahnemann aðferð til að auka virkni þeirra (Methode zur Anhebung ihrer Wirkung). Þetta var mögulegt vegna þess að þynningin opnar fyrir þann möguleika að gefa einungis slíka remedíu veikum lífverum þar sem hún truflar ekki bataþróun þeirra og veldur ekki neinum hliðarverkunum. En það er einmitt þessi aðlögun sem kallar andstæðinga hómópatískra kenninga fram á sjónarsviðið enn í dag eins og í upphafi. Fulltrúar gagnlækninga (allópatíu) halda því fram að ákveðnar hliðarverkanir séu eðlilegar og að taka verði það til greina. Möguleg áhrif venjulegra lyfja eru meira að segja útskýrð sem óhjákvæmilegar hliðarverkanir.

Árið 1839 skrifaði Samuel Hahnemann eftirfarandi um skilvirkni lögmálkenninga sinna: „Hómópatísk virkni verður þegar hulinn eiginleiki sjálfsheilunarmáttar vaknar upp í eðlilegum líkömum“. Með þessu átti hann við sjálfslækningarmátt líkamans og með hulinn eiginleiki vaknar átti hann við hinn innri lækni. Hin undraverða staðreynd hómópatískrar meðferðar er að í fjölda sjúkdómstilfella leiða smáskammtarnir til undraverðs árangurs.
page73_8
Minnisvarði í Leipzig reistur árið  1851.

Greinin er tekin af heimasíðu Samuel Hahnemann Foundation, www.samuel-hahnemann-foundation.org/, og þýdd með leyfi höfundanna.