Sagan um erfðabreytt matvæli byrjar í Bandaríkjunum fyrir u.þ.b. 20 árum þegar líftæknifyrirtæki fóru að gera tilraunir með að breyta matvælum með erfðatækni.
Saga erfðabreyttra matvæla er í mínum huga ein stór sorgarsaga. Mikið hefur verið ritað og rætt um erfðabreytt matvæli í nágrannalöndum okkar og mikill hluti neytenda vill forðast þessar afurðir. Á Íslandi vantar meiri fræðslu og umræðu.
Sumir vilja rugla saman kynbótum og erfðatækni, en báðar þessar aðferðir eru notaðar til að ná fram nýjum eiginleikum tegundanna. Blandað er saman tegundum til að fá fram nýja eiginleika. Kynbætur hafa farið fram frá því maðurinn fór að yrkja jörðina. Í kynbótum er einungis hægt að blanda saman skyldum tegundum. Algengt var að víxlrækta tvær korntegundir til að fá fram nýtt afbrigði með eiginleika og næringargildi beggja. Flestar korntegundir á markaðnum í dag eru kynbættar. Þó eru til hreinræktaðar korntegundir sem ekki hafa verið kynbættar m.a. spelt. Það er þó ekki endilega alltaf hreinræktað, því sumt spelt hefur verið kynbætt og víxlræktað með hveiti.
Í erfðatækninni er um miklu flóknari tækni að ræða og miklu meira inngrip í náttúruna. Þar er hægt að blanda saman eiginleikum alls óskyldra tegunda, en það er ekki hægt í kynbótum. Erfðabreyting inniber að tekið er erfðaefni úr frumu einnar lífveru og fært yfir í aðra. Þannig er erfðaefninu breytt og ákveðnir eiginleikar og efni úr einni lífveru fært yfir í aðra. Til þess að þetta sé hægt þarf að komast inn í innsta kjarna lífverunnar, inn í frumuna og ná þar í erfðaefni sem er síðan sett inn í frumu annarrar lífveru. Til þess að komast inn í kjarna frumunnar er notast við bakteríur og vírusa. Það eru þær lífverur sem geta komist inn í frumuna. Þessi tækni býður upp á að hægt sé að ná í erfðavísa úr dýri og setja í jurt. Þetta hefur verið gert og m.a. hefur verið tekið erfðaefni úr svíni og sett í sallat til að sallatið vaxi hraðar. Annað dæmi um það sem gert hefur verið er að taka erfðaefni úr brasilíuhnetu og setja í sojabaun til að fá ennþá próteinríkari sojabaunir. Þegar farið var að skoða nánar nýja afbrigðið af þessum sojabaunum kom í ljós að það kallaði fram bráðaofnæmi hjá þeim sem höfðu bráðaofnæmi fyrir brasilíuhnetum. Þessar sojabaunir voru afturkallaðar og ekki seldar áfram. En staðreyndin er sú í dag að ekki er skylda að merkja sérstaklega erfðabreytt matvæli og þá getur neytandinn ekki vitað hvort afurðin er erfðabreytt og ef um erfðabreytta afurð er að ræða þá er að sjálfsögðu heldur ekki um neinar upplýsingar að ræða varðandi hvernig henni hefur verið erfðabreytt. Vísindamenn hafa haft frjálsar hendur til að prófa sig áfram og hafa fengið fullan stuðning yfirvalda.
Saga erfðabreyttra afurða í Bandaríkjunum er ótrúleg. Nýlega var sýnd í sjónvarpinu fræðslumynd um erfðabreytt matvæli og ættu í rauninni allir neytendur að sjá þessa mynd, en hana er hægt að nálgast á heimasíðunni www.thefutureoffood.com
Þar kemur fram að fyrirtækið Monsanto í Bandaríkjunum sem framleiðir m.a. tilbúinn áburð og skordýraeitur og hefur gert í áratugi, fékk einkaleyfi á erfðabreyttu korni. Þeir fengu einnig einkaleyfi á flestum kornafbrigðum í kornbönkum í Bandaríkjunum og gátu því stýrt því hvaða tegundir væru settar á markað. Þegar þeir fóru að rækta þessar nýju erfðabreyttu korntegudir þá gerðist það að kornið þeirra sáði sér yfir á akur bænda sem voru með sitt eigið kornútsæði. Einn bóndi komst að þessu og fannst slæmt að erfðabreytt korn væri komið á hans akur og fannst það menga sitt korn. Monsanto fyrirtækið fór í mál við bóndann og ásakaði hann um að hafa stolið þeirra kornafbrigði og vann málið! Bóndinn hafði engan rétt á kornafbrigðinu sem Monsanto hafði einkaleyfi á og því átti bóndinn að borga skaðabætur fyrir að hafa stolið erfðabreytta korninu (sem fauk yfir á hans akur). Þetta gerðist hjá fleiri bændum og mörg þúsund bændur fengu hótunarbréf frá Monsanto. Flestir bændurnir borguðu, því þeir óttuðust málaferli. Þeir hættu líka að nota eigið útsæði, og eru því háðir því að kaupa erfðabreytta útsæðið. Í dag eru 80% af öllum sojabaunum og 80% af öllum maís sem ræktað er í Bandaríkjunum erfðabreytt. Einnig er mjög stór hluti af repju, bómull og hveiti erfðabreytt. Verst af öllu er að framleiðendum ber engin skylda til að merkja vörur sínar sem erfðabreyttar. Þess vegna verða framleiðendur sem ekki vilja nota erfðabreytt efni í framleiðsluvörur sínar að merkja þær sérstaklega og taka fram að þær innihaldi ekki erfðabreytt efni. Þetta gera margir framleiðendur og varan er þá merkt “non GMO” sem þýðir “not genmanipulated”
Ekki er leyfilegt að nota erfðabreytt efni í lífrænni ræktun. Ef vara er vottuð lífrænt ræktuð af viðurkenndum vottunaraðila á hún ekki að innihalda erfðabreytt efni. Það átti hins vegar í Bandaríkjunum að leyfa erfðabreytt efni í lífrænni ræktun en þá risu neytendur upp og mótmæltu svo kröftuglega að fallið var frá því. En neytendum hefur samt ekki tekist að fá það í gegn að framleiðendur vara sem innihalda erfðabreytt efni merki þær sérstaklega.
Það sem einnig er svo alvarlegt við erfðabreytt korn er að komið hefur í ljós að þar sem það blandast öðru korni þar tekur það smám saman yfirhöndina og útrýmir þeirri korntegund sem var þar fyrir og verður ríkjandi. Það er þetta sem er svo mikið áhyggjuefni. Margir vísindamenn hafa bent á það hversu mikilvægt sé að hafa mörg náttúruleg afbrigði af sömu tegundinni. Bestu afbrigðin séu einnig þau sem þróast hjá bændunum sjálfum. Til dæmis þá eru mjög mörg afbrigði af maís í Mexíkó og þar eru bændur stoltir af að rækta sínar tegundir af maís, þó það sé miklu dýrara fyrir þá en að kaupa erfðabreyttan maís frá Bandaríkjunum. Eitt sumar gerðist það að maís í Bandaríkjunum sýktist og var ekki hægt að bjarga honum. Þá fannst náttúrulegt afbrigði í Mexíkó sem stóðst þessa pest og var hún flutt til Bandaríkjanna.
Á Íslandi eru ennþá engar reglur til um merkingar á erfðabreyttum afurðum. Það er ekki alveg ljóst hvenær það verður og upplýsingar frá umhverfisráðuneytinu eru þær að breyta þurfi reglum til að það verði hægt og ekki sé hægt að segja til um hvenær þess sé að vænta. Þangað til er mælt með að nota vottaðar lífrænt ræktaðar afurðir fyrir þá sem vilja forðast erfðabreytt matvæli.
Neytendur í Bandaríkjunum hafa risið upp og mótmælt þessu en mega sín lítils gegn risanum og ekki hefur verið hlustað á þá kröfu að fá erfðabreyttar vörur merktar. Á Íslandi er mikið flutt inn frá Bandaríkjunum og komið hefur fram að um það bil 60% af öllu dýrafóðri sem flutt er til landsins er erfðabreytt. Engar reglur eru ennþá um merkingar hér á landi og því getum við ekki vitað hversu mikið af almennum neysluvörum innihalda erfðabreytt efni.
Lengi vel var haldið fram og er reyndar sums staðar ennþá að erfðabreytt matvæli séu framtíðin. Matvæli sem framleiða megi í stórum stíl til að metta hungraðan heim. En staðreyndin er allt önnur. Framleiðsla á erfðabreyttum matvælum rekur fátæka bændur frá jörðum sínum og margir enda í flóttamannabúðum. Á Indlandi hafa þúsundir bænda framið sjálfsmorð eftir að uppskera þeirra hefur brugðist og þeir sjá ekki neina leið út úr skuldunum, þegar þeir skulda Monsanto fyrirtækinu sem seldi þeim útsæði á erfðabreyttu korni. Á Indlandi hefur lífræn ræktun aukist mikið og þar er sagan önnur. Til að fara yfir í lífræna ræktun þurfa bændurnir ekki að taka lán. Á aðeins tveimur árum hefur kostnaður minnkað og uppskera aukist. Börn geta verið með foreldrum sínum á ökrunum þvi þar eru engin eiturefni notuð. Lífræna ræktunin eykur því lífsgæði fólksins.
Þegar þetta er skrifað í september 2007 er nýlokið mótmælagöngu í Þýskalandi gegn erfðabreyttum matvælum. Upphafsmaður göngunnar er Joseph Wilhelm stofnandi fyrirtækisins Rapunzel í Þýskalandi, en það fyrirtæki hefur framleitt og dreift lífrænt ræktuðum vörum í meira en 30 ár. Á síðasta ári var leyft í Evrópu að rækta í tilraunaskyni erfðabreyttar afurðir. Það var mikið áfall því mótmæli gegn erfðab reyttu hafa verið mikil í Evrópu. Fyrir þá sem vilja fræðast meira um það má fara inná heimasíðuna www.rapunzel.de/uk/.
Neytendur þurfa að taka sig saman og krefjast þess að erfðabreytt matvæli séu sérstaklega merkt fyrir þá sem vilja forðast þau. Margir vilja meina að mikil aukning á ofnæmi á síðustu árum sé að stórum hluta að kenna þeim erfðabreyttu matvælum sem eru á markaðnum. Lítill áhugi hefur verið á að rannsaka þetta, og það er líka erfitt þegar enginn veit hvað er erfðabreytt og hvað ekki og því ekki hægt að meta hvað það er í matvörunni sem veldur ofnæminu.
Er ekki kominn tími til að rísa upp og krefjast þess að fá merkingar á afurður sem innihalda erfðabreytt efni. Viljum við ekki vita hvað við erum að gefa börnunum okkar að borða. Það er áhyggjuefni hversu mikið af aukaefnum og eiturefnum er notað í matvælaframleiðslu í dag, en þar er hægt að snúa blaðinu við. Þegar um erfðabreytt er að ræða er ekki hægt að snúa við og endurheimta það sem áður var.
Ég hvet alla sem áhuga hafa á þessu málefni að rísa upp og leggja sitt af mörkum til að fá meiri umræðu um þessi mál.
Hildur Guðmundsdóttir