Sjúkranudd er meðhöndlun á mjúkvefjum líkamans í lækningaskyni. Mjúkvefir eru vöðvar, sinar, liðbönd, húð og himnur.
Sjúkranudd er löggild heilbrigðis-starfsgrein sem kennd er á háskólastigi erlendis.
Klassískt nudd og líkamsskoðun eru grunnurinn í sjúkranuddi en öðrum aðferðum er einnig beitt s.s. teygjum, losun trigger punkta, bandvefsnuddi /losun, liðleik, vatnsmeðferðum, heitum og köldum bökstrum, bjúgmeðferð, fræðslu og fleiru.
Sjúkranudd á að lina verki og óþægindi í mjúkvefjum líkamans sem stafað geta af streitu, misbeitingu, álagseinkennum, meiðslum, sjúkdómum eða áverkum.
Sérhæfing sjúkranuddara er á ýmsum sviðum s.s. bjúgmeðferð, íþróttameiðslum, ungbarna-, fæðingar- og meðgöngunuddi svo eitthvað sé nefnt.
Tryggingastofnun ríkisins greiðir ekki niður sjúkranudd en hins vegar taka sjúkrasjóðir flestra stéttarfélaga þátt í kostnaði og ef um meðferð eftir slys er að ræða greiða sum tryggingafélög meðferðirnar.