Maginn í þér er klókari en þú heldur…

Maginn í þér er klókari en þú heldur…

Nýjar rannsóknir sýna að við höfum tvo heila, þennan sem við þekkjum í höfðinu og annan í maganum.  Maginn getur orðið þunglyndur eða ,,manískt-depressívur”  (geðhvarfasýki). Þessi spennandi vitneskja um taugakerfi meltingarkerfisins opnar nýja möguleika fyrir notkun hefðbundinnar svæðameðferðar til að meðhöndla á taugakerfið vegna meltingarvandamála.

Hvers vegna fáum við „fiðrildi” í magann áður en við troðum upp eða tökum próf? Hvers vegna veldur slæm melting oft martröðum? Af hverju er byrjað að gefa þunglyndislyf til að meðhöndla maga eða þarma sjúkdóma?

Þar til nýlega hefur almennt verið viðurkennt að taugakerfið skiptist í miðtaugakerfi (heili og mæna) og úttaugakerfi (heilatugar, mænutaugar, skynfæri og þær taugar sem tengja þær miðtaugakerfi). Nýjar rannsóknir sýna að við neyðumst til þess að bæta við enn öðrum hluta, eða magaheilanum, eða iðrataugakerfinu.  Við höfum tvo heila  „höfuðheilann og magaheilann”.  Þessir tveir heilar hafa tengsl, eins og síamstvíburar, þegar annar þeirra er ertur, hefur það áhrif á hinn líka.

Vísindin rökstyðja óhefðbundna þekkingu
Þessi þekking er ekki svo ný í augum óhefðbundinna meðferðaraðila, þeir hafa lengi vitað hversu mikilvægt það er að hafa meltingarveginn með við meðhöndlun hinna ýmsu vandamála. Sumir tala jafnvel um að öll endurnýjun eigi upptök sín í meltingarveginum.  En það er áhugavert að vísindin skuli leiða rök að þessu. Alveg nýtt rannsóknarsvið, neurogastroenterologia sem má útleggja sem meltingariðrataugafræði hefur orðið til.  Þessi öfluga þróun er sér í lagi kostuð af lyfjaiðnaðinum, sem að sjálfsögðu sjá mikla möguleika í meðhöndlun á maga- og þarmasjúkdómum með nýjum tegundum taugalyfja, en ekki síður er hægt að nýta sér þessa nýju uppgötvanir í svæðameðferð.

Smávegis maga-heilahugmyndafræði
Að sterk tengsl séu á milli meltingarkerfisins og taugakerfisins hefur verið vitað í árhundruð. Við tölum m.a. um að melta nýja hluti. Talað er um að þyrsta eftir þekkingu, maður getur einnig fengið upp í kok af einhverju sem ekkert á skylt við mat, og orðið saddur lífdaga eða maður meltir eitthvað með sér.  Við tölum einnig um andlega fæðu og um að fóðra heilann. Við tyggjum eitthvað ofan í einhvern, fáum munnræpu og svo frv.
Ef við horfum alveg formfræðilega á heilann og magann er margt mjög líkt með heilafellingunum og garnafellingunum, eins og m.a. Hanne Marquardt hefur bent á.
page61_1
Mynd 1: Smáþarmafellingar(A) og heilafellingar(B) eru mjög líkar í laginu.
Meltingarvandamál hjá eldra fólki
Allir svæða- og viðbragðsfræðingar meðhöndla meltingarvandamál. Lýsing svæðanuddara frá 1993 á viðskiptavinum sýnir að meltingarvandamál eru næst algengasta einkennið sem þeir rekast á, aðeins stoðkerfisvandamál eru algengari.
Stíflur hjá eldra fólki, sérstaklega konum, eru útbreitt vandamál. Það getur verið örlítið erfiðara að meðhöndla þær hjá eldra fólki þar sem margir meðvirkandi þættir, svo sem skortur á hreyfingu og of lítill vökva- grænmetis og ávaxtaneysla, hafa áhrif. Það léttir heldur ekki róðurinn að margt eldra fólk tekur að staðaldri hin ýmsu og oft vanabindandi, hægðalyf.
Meðhöndlun á eldra og yngra fólki með hægðastíflur er í meginatriðum hin sama. Með nýrri þekkingu á ,,magaheilanum” opnast nú nýjar víddir í meðhöndluninni.

Meðhöndlun um taugakerfið
Það er ekki bara hægt að nota taugasvæðameðferð vegna vandamála í baki, eða stoðkerfinu almennt, það er í miklum mæli einnig hægt að nota hana til þess að meðhöndla líffæri. Taugasvæðameðferð er eðlileg útvíkkun á hefðbundinni svæðameðferð og byggist á kenningum og fótakortum Eunice Ingham og Hönnu Marquardt.  Með því að bæta við nákvæmum puktum fyrir taugar og taugakerfið opnast alveg nýjir og áhrifamiklir möguleikar í meðferðinni.
Taugakerfið stjórnar öllum líffærum. Því er upplagt fyrir svæða- og viðbragðsfræðinga að bæta við hinum hefðbundnu líffærasvæðum og viðbragðspunktum sem hafa áhrif á ítaugun  líffæranna. Í lok greinarinnar eru sýnd nokkur atriði sem hægt er að prófa þegar verið er að meðhöndla meltingarkerfið, þar á meðal hægðastíflu.

page61_2
Mynd 2: Yfirlit af lögunum í maga og þarmaveggjum. Taugavefurinn er litaður gulur.
Magaheilinn og flökkutaugin (Nervus Vagus)
,,Magaheilinn” er í  tveimur lögum í þarmaveggjunum. Annað er á milli tveggja vöðvalaga þarmaveggjanna og hitt rétt undir slímhimnunni. Hann teygir sig í gegnum allan meltingarveginn, alla leið frá vélinda til endaþarms. Það er almenn vitneskja að starfsemi meltingarkerfisins er stjórnað af ósjálfráða taugakerfinu og að þarmaveggirnir innihalda taugafrumur sem samhæfa eltandi og áfram færandi þarmahreyfingar. Það er einnig vitað að þarmurinn er sjálfur fær um að framkalla peristalsískar hreyfingar (meltingarhreyfingar) hjá heiladauðum sjúklingum og hjá sjúklingum sem eftir slys hafa misst taugatenginguna á milli heila og þarma.

Það er fyrst hin síðustu tíu ár sem menn eru farnir að gera sér grein fyrir hversu umfangsmikið þetta kerfi er. Það hefur lengi verið vitað að vagus taugin (flökkutaugin (mikilvægasta parasympatíska taugin sem ítaugar meltingarkerfið)) inniheldur um það bil 1.000 einstaka taugaþræði. Nýlega hefur verið reynt að telja fjölda taugafruma í meltingarkerfinu og þá kom í ljós að þær eru yfir 100 milljónir. þær eru fleiri en í allri mænunni! Ef að sympatíska taugakerfið og vagus taugin stjórna meltingarferlinu, í hvað þurfa þarmarnir þá að nota hundraðþúsund sinnum fleiri taugar?

Daprir þarmar.
Það sem til þessa er vitað um ,,magaheilann” er að hann er sjálfstætt starfandi líkamskerfi, sem samanstendur af neti taugafrumna, viðtaka, stoðfrumum og boðefnum og líkist heilanum á margan hátt  að uppbyggingu. Magaheilinn vakir yfir og stýrir öllum þáttum niðurbrots og uppsogs fæðunnar en hann hefur margan annan starfa.
Bandaríski vísindamaðurinn Michael D. Gershon hefur rannsakað tilveru kemískra boðefna (taugaboðefna) í meltingarveginum og uppgötvaði að meltingarvegurinn inniheldur mikið magn af efninu  serótónín. Áður fyrr var haldið að þetta efni væri einungis til staðar í heilanum en það sýndi sig að 95% serótóníns í líkamanum er í taugakerfi meltingarvegsins. Serótónín er meðal annars nauðsynlegt til að viðhalda andlegu jafnvægi og talið er að það komi við sögu í þunglyndi. Þess vegna er byrjað að gefa þunglyndislyf við maga- og þarmasjúkdómum. Nú er vitað að öll þau boðefni og hormónar sem eru í heila og mænu eru einnig í þörmunum.

Magadraumar
Áhugavert samhengi hefur verið skoðað í svefnrannsóknum. Það er velþekkt að heilavirkni í svefni endurtekur sig í u.þ.b. 90 tímabilum. Í svefni, á meðan heilinn móttekur ekki skynjunaráreiti, framleiðum við hægar heilabylgjur sem eru rofnar með tímabilum hraðra augnhreyfinga (REM-svefn). Nákvæmlega það sama gerist í þörmunum þegar þar er ekki fæða til að melta. Vöðvakerfi þarmanna framkvæmir hæga samdrætti sem eru rofnir með hröðum vöðvahreyfingum. Þetta fer einnig fram í 90 mínútna tímabilum.

Það er augljóst að heilarnir tveir hafa einnig áhrif á hvorn annan í svefni. Það er t.d. algengt að fólk með mismundandi meltingarvandamál upplifi svefnörðugleika eða órólegan svefn.

page61_3

Hvernig meðhöndlum við magaheilann?
Vegna staðsetningar iðrataugakerfisins í maga- og þarmaveggjum er það meðhöndlað sjálfkrafa, um leið og meltingarvegssvæðin eru meðhöndluð, en með þessari nýju vitneskju höfum við öðlast nýja möguleika til að skilja og notfæra okkur samhengið á milli meltingarinnar og annarra líkamshluta. Nákvæmari meðhöndlun fæst í gegn um taugasvæðameðferðina, þar sem hægt er að fara inn og hafa áhrif á sympatísk og parasympatísk taugatengsl á milli heilans og magaheilans. Sem dæmi má benda á nokkra mikilvæga punkta (sjá mynd 3).
·       Parasympatísku tengslin eru meðhöndluð í gegn um flökkutaugar (n. vagus) viðbragðspunktinn.
·       Sympatísku tengslanna er hægt að ná til í gegn um iðraholshnoðu (ganglion coeliacum) og efra og neðra hengishnoður (ganglion mesentericum superior og inferior).
Það eru hin svokölluðu framanhryggjar-taugahnoð, sem eru nokkrar stórar kvíslar eða taugafrumuklasar symtatískra taugaþráða, sem spinnast utan um stóru slagæðarnar í kviðarholinu og fylgja þeim út til líffæranna.

Mynd 3: Mikilvægir taugaviðbragðspunktar fyrir samskipti heila og magaheila.

Eins og alltaf í taugasvæðameðferð er notuð sérstök meðhöndlunartækni með stöðugum þrýstingi.
Það er alltaf verið að birta nýjar rannsóknarniðurstöður sem afhjúpa marga leyndardóma iðrataugakerfisins, svo að það má heita öruggt mál að þetta er ekki í síðasta skipið sem að við heyrum um hinn heilann okkar.
Hugsaðu til magaheilans næst þegar þú meðhöndlar ristilsvæðið!

page61_4

Staðreyndir um magaheilann
·       Inniheldur stoðfrumur af stjarnfrumu (astrocyt) gerð, sem einungis annars finnast í heilanum *
·       Inniheldur 100 milljónir taugafruma
·       Hefur viðtaka fyrir ósjálfráðar hreyfingar og kemísk efni.
·       Inniheldur öll taugaboðefni sem einnig eru í heilanum.
·       Starfar sjálfstætt
·       Hefur samskipti við heilann í gegn um ósjálfráða taugakerfið.
·       Verður fyrir áhrifum taugalyfja.
·       Getur orðið „þunglyndur” eða fengið „geðhvarfasýki“

*Þegar allt er eðlilegt, gefa þessar frumur frá sér efni þekkt sem hlutleysis efni (neurotrophic factors) sem er mikilvægt fyrir starfsemi taugafruma, þær sjá einnig um að eyða eitrunaráhrifum úrgangsefna sem taugafrumurnar skilja eftir sig. Skemmd á stoðfrumum getur leitt til minnkunar á fráskilnaði vaxtarþáttar og eða uppsöfnunar á eitruðum afurðum sem geta skemmt nærliggjandi taugafrumur. Stoðfrumur virðast koma við sögu í öllum þremur taugahrörnunarsjúkdómunum. Parkinsons, MND og Alzheimer.

Heimildir
Hansen, Mark Berner: Neurogastroenterologi, BookPartner, 2002
Gershon, Michael D.: The Second Brain: A Groundbreaking New Understanding of Nervous Disorders of the Stomach and Intestine, Perennial Press, 2000
Pauly, Nico: Kompendium i Nervezoneterapi Trin I-III, Touchpoint, 2002
Lewis, Ricki: Birth of a Discipline, The Scientist 10[10], May 13, 1996

Hallfríður María Pálsdóttir þýddi og endursagði úr dönsku með leyfi höfundanna Peter Lund Frandsen og Dorthe Krogsgaard.