Hómópatía á meðgöngu og í fæðingu

Hómópatía á meðgöngu og í fæðingu

Ég á að baki tvær meðgöngur og fæðingar. Meðgöngurnar voru hvor annarri líkar fyrir utan það að í seinni meðgöngunni notaði ég hómópatíu markvisst við hinum ýmsu kvillum sem hrjáð geta konur á þessum tíma. Ég varð aldrei veik á seinni meðgöngunni en ég fékk hinsvegar bráða eyrnabólgu og flensu á þeirri fyrri og notaði hefðbundnar aðferðir til að lina verkina. Ég hafði kynnst hómópatíu eftir að hómópati læknaði þráláta eyrnabólgu sem eins og hálfsárs gömul dóttir mín hafði þjáðst af í sex mánuði og engin klínískra aðferða virkaði. Ég fann vel hvernig hómópatían hjálpaði í óléttunni: allt frá stífluðu nefi og hellum fyrir eyrum til þungra daga þar sem mér fannst ég ekki nenna neinu eða geta neitt – alltaf gat ég leitað á náðir hómópatíunnar.

Fyrri fæðingin mín var mjög langdregin. Ég var með mjög sárar hríðar, upplifði mikið stjórnleysi og óróa í kringum fæðinguna, bæði af minni hálfu og líka hjá ljósmæðrunum, en ég var í um 25 klst að fæða. Ég rifnaði og var mjög lengi að jafna mig. Mér fannst ég líka lengi finna fyrir saumunum og það var mjög sárt að sitja í nokkrar vikur á eftir. Svona var ástandið – ekki kannski ákjósanlegast þegar maður er að reyna að átta sig á þessu öllu, koma brjóstagjöfinni í gang, kynnast barninu og sjálfri sér alveg upp á nýtt. Ég var sem sagt mjög, þreytt- líkamlega- eftir fæðinguna og sennilega andlega líka því ég hugsaði ekki mikið um útlitið eða heilsu mína allt árið á eftir. Þegar ég hugsa til baka man ég hversu máttfarin mér fannst ég vera, ég man eftir vöðvabólgu af þreytu og jafnvel svolitlu sinnuleysi gagnvart sjálfri mér.

Seinni fæðingin og allt í kringum seinni dóttur mína og mig var svo einmitt alveg á hinn veginn. Samt voru aðstæður verri nú en þá. Nú var ég meira og minna ein alla meðgönguna, á meðan maðurinn minn hafði verið mín stoð og stytta á þeirri fyrri. Við vorum að selja íbúðina okkar þegar ég var gengin einhverja sjö mánuði, þ.e.a.s. ég var að selja á meðan maðurinn minn var erlendis í verkefnum, og ég var líka að skoða og á endanum kaupa aðra íbúð – kasólétt með litluna mína að verða tveggja ára í eftirdragi! Ég þurfti svo að milliflytja í lítið herbergi hjá mömmu með dóttur mína og bumbuna áður en ég fengi inni í nýju íbúðinni – en nú var maðurinn minn alltaf að vinna í íbúðinni og kom örþreyttur heim á nóttunni rétt til að sofa. Við hittumst sem sagt eiginlega ekkert þessa meðgöngu.

Viku fyrir eiginlegan flutning fæ ég hríðar heima hjá mömmu. Ég hafði hjá mér hómópatíuboxið með fæðingarremedíunum og tók svo remedíur eftir því sem við átti. Hríðarnar jukust hægt og rólega alla nóttina fram undir morgun og mér fannst ég fullkomlega við stjórn. Ég hringdi svo í manninn minn og sagði honum að koma því við þyrftum að fara að fara. Alltaf var hómópatían með mér.

Tveimur og hálfum tíma síðar var ég búin að fæða litluna mína – ekki of hratt – ekki of hægt – bara búin að fæða – eins og ég hefði aldrei gert annað – þetta var ótrúlega yndislegt!

Nú fékk ég ekkert parkódín forte, ekkert hláturgas, ekkert hormónanefsprey– nú var ekkert verið að vesenast í mér með að reyna að flýta fæðingunni. Ég gerði þetta bara alveg sjálf – en ég vil meina að hómópatían hafi hjálpað mér óendanlega – hún varð hluti af mér í þessu- hvort sem það var líkamlegur verkur eða andlegur – þá gat ég unnið úr verknum með hómópatíunni minni.

En það sem er kannski merkilegast er að í þetta sinn var ég klippt. Dóttir mín sneri andlitinu fram og því bað ég um klippingu eftir um klukkutíma rembing. Þetta er álitið mikið inngrip – sem það er – það var klippt í líkama minn með skærum! Samt sem áður fann ég aldrei fyrir saumunum, fann aldrei eins mikla og sársaukafulla verki og í fyrra skiptið og nú var ekkert vont að sitja. Ég fann vissulega fyrir bólgum en aldrei verkjum – ef þeir komu, þá hafði ég remedíu við þeim. Það er ótrúlegur styrkur í hómópatíunni svona.

Viku eftir fæðingu var ég komin á ról, svo að segja, ég hafði ótrúlega orku miðað við þetta allt saman – það var ótrúlega létt yfir mér og allt saman small þetta eins og flís við rass. Þetta var frábær munur – á fyrri og seinni fæðingu. Ég tók remedíur í einhverjar fjórar vikur á eftir – alltaf minna og minna. Ég er ansi hrædd um að hefði ég ekki haft “hómó-ið” mitt þá hefði ég einfaldlega farið yfirum stundum.

Við fjölskyldan notum öll hómópatíu í dag. Litlan mín fékk kveisu og við því tekur hún remedíur með mjög góðum árangri. Við notum þetta í hófi eins og lyf eiga að vera notuð en notum þetta við öllu frá því að vera með stíflað nef og hálsbólgu og til þess að vera andlega búin á því.

Mér finnst þetta auðskilin aðferð til að lækna – að lækna líkt með líku – og ekkert flóknari eða dularfyllri en hefðbundnar klínískar aðferðir. Ég kann ekki að útlista nákvæmlega hvað það er í parkódíninu sem vinnur gegn verknum mínum – ég veit bara að það virkar. Á sama hátt kann ég ekki að útlista nákvæmlega hvernig remedían mín vinnur á kvilla mínum – ég veit bara, eins og með parkódínið, að hún virkar. Maður hefur val og eftir að hafa kynnt mér málin vel, t.d. með því að skoða “með og á móti” síður á netinu, vel ég hómópatíu. Mér finnst sú aðferð meira í takt við líkamann – þar er ráðist að meininu en ekki bara einkennum meinsins – þetta á vel við mig og ég þekki þetta bara af því að virka.

Sara Stefánsdóttir
tveggja barna móðir