Breytingaskeiðið

Breytingaskeiðið

Eftir Dagmar J. Eiríksdóttur og Jónu Ágústu Ragnheiðardóttur

Það má líta á breytingar frá tveimur sjónarhólum; annars vegar sem ógnun og hins vegar sem ögrun. Ef við verjumst breytingunum og afneitum þeim, er líklegt að við sóum mikilvægri orku og stöndum uppi andlega, líkamlega og tilfinningalega tæmd. Í kjölfar þess fylgja oft vandamál eins og kvíði, þunglyndi, lágt sjálfsmat, óöryggi, einbeitingarleysi, þverrandi kynhvöt og yfirþyrmandi tilfinning fyrir því að vera að brotna niður.  Þegar við leyfum lífinu að hafa sinn gang, verður útkoman allt önnur; við öðlumst nýjan skilning á breytingunum á okkur; líkamlega, andlega og tilfinningalega og teljum þær vera jákvæða þróun. Þetta viðhorf getur fært okkur aukinn tilfinningaþroska og skilning, aukið sjálfstraust, aukið þolgæði og þrá eftir heilbrigðu lífi.

Það má líta á breytingaskeiðið og gelgjuskeiðið sem spegilmyndir, sem eiga sameiginlegar átakamiklar breytingar, sem fylgja því að færast af einu æviskeiði yfir  á annað. Þessar breytingar geta verið  sársaukafullar og valdið ruglingi og hræðslu við nýtt ævistig, þar sem óöryggi og ótti við hið óþekkta ráða ríkjum. Því er nauðsynlegt, að konur kynni sér hvað felst í þessum breytingum, hvað þær geta sjálfar gert til að létta sér lífið s.s. varðandi mataræði og heilbrigðan lífsstíl og hvaða valmöguleikar eru í boði sem stuðningur við þær meðan á breytingunum stendur.

Hormónameðferð

Á Íslandi hefur hefðbundinn lækningaheimur lengi ráðið ríkjum og fólk því haft um fátt annað að velja. En nú er öldin önnur og óhefðbundnar aðferðir ryðja sér til rúms hér á landi sem annars staðar.

Þeir, sem stunda hefðbundar lækningar, halda fram ágæti hormónameðferðar og segja hana vera merkilegustu aðferðina til þess að hjálpa konum í glímunni  við þau vandamál, sem eru álitin óhjákvæmilegur fylgikvilli þeirra tímamóta í lífinu, sem breytingaskeiðið er. Hefur hver til síns ágætis nokkuð. Hins vegar líta hefðbundnar lækningar á frekar á breytingaskeiðið sem hrörnunarsjúkdóm (minnkandi estrogenmagn), heldur en eðlilegan hluta af breytingum, sem þurfi að styðja á réttan hátt svo þær valdi sem minnstum vandræðum og veikindum. Það má líta svo á, að hefðbundnar lækningaaðferðir bæli eðlilega þróun eins lengi og þær  mögulega geta haldið einkennum hennar í skefjum.

Þessu er öðru vísi farið í heildrænni  nálgun hómópatíunnar og nálastungunnar, sem líta svo á, að það þurfi að styðja allt kerfið í viðleitni þess til að komast í gegnum breytingarnar eins farsællega og mögulegt er.

Nálastungur

Í gömlum kínverskum fræðum er lítið eða ekkert að finna um breytingaskeið kvenna en þeim mun meira um viðhald góðrar heilsu. Taóisminn kennir að til þess að eldast heill á sál og líkama sé mikilvægt að vera í takt við þá alheimsorku sem stjórnar árstíðunum á jörðinni og stýrir mismunandi lífsskeiðum okkar gegnum lífið.

Í gamla Kína var reiknað með að fólk lifði um og yfir 100 ár við góða heilsu ef farið væri eftir náttúrulögmálunum og lifað í samræmi við þau. En ef lifað er á skjön við lögmálin, brennum við hraðar upp, líkt og kerti við opinn glugga.

Við getum skoðað lífið sem ferli eða ferðalag í gegnum elementin fimm:

  • Vorið – (Viður) – þegar líf vaknar fullt af þrótti og orku – æskan.
  • Sumar – (Eldur) – þegar allt er í fullum vexti og blóm að springa út -unglingsárin – gelgjuskeiðið.
  • Síðsumar- (Jörð) – þegar ávextir ná fullum þroska – fullorðinsárin, fjölskyldumyndun, barnsfæðingar.
  • Haust – (Málmur) – þegar allri uppskerunni er safnað saman og komið í hús. Næði til að leita inn á við og flokka það sem máli skiptir frá hisminu, tími uppgjörs – breytingaskeiðið.
  • Vetur – (Vatn) – það ríkir kyrrð í náttúrunni, elli og viska. Til þess að kona geti notið vetursins í lífi sínu þarf hún að hafa haldið uppskeruhátíð haustsins og þakkað fyrir það sem lífið hefur fært henni fram að þessu.

Konan er eina spendýrið sem fer í gegnum breytingaskeiðið. Öll önnur spendýr geta átt afkvæmi fram á dauðadag. Þetta er snjöll leið náttúrunnar til að lengja líf okkar, en okkar að sjá til þess að við séum heilsufarslega það vel á okkur komnar að við getum notið þess. Það gerum við með því að borða hollan mat, hreyfa okkur og hvíla svo nokkuð sé nefnt. Það sem við borðum og drekkum hefur gríðarlega mikið að segja um hvernig okkur líður andlega jafnt sem líkamlega. Í náttúrunni má finna mat sem inniheldur estrogen og prógesteron, sem getur komið að gagni á meðan líkaminn er að venjast minnkandi hormónamagni. Soya afurðir svo sem tofu, miso og soyabaunir innihalda phytoestrols sem hefur svipaða mólíkúl uppbyggingu og estrogen, og hefur verið notað til að létta einkenni breytingaskeiðs án aukaverkana. Prógesteron má meðal annars fá úr eftirtöldum matvælum: anis, sellery, ginseng og alfalfa. Vegna minnkandi framleiðslu estrogens hægir á kalsíum upptöku og því ber að forðast kaffi, gosdrykki, mikið unninn mat, reykingar og áfenga drykki. Matur sem inniheldur kalsíum er grænt laufgrænmeti: spínat, brokkolí og steinselja. Einnig er gott að borða fisk svo sem sardínur. Hnetur, sesamfræ, möndlur, fíkjur og ef til vill mjólkurafurðir í hófi. Líkamsæfingar eins og jóga og Tai-chi eru góðar þar sem þær vinna vel með líkama, huga og sál.

Nálastungur eru ævafornt lækningakerfi þar sem nálum er stungið í vissa punkta á líkamanum til að bæta, endurbyggja, viðhalda og varðveita góða heilsu. Þessir punktar hafa nákvæma staðsetningu undir yfirborði húðarinnar og liggja í ákveðnum orkurásum um líkamann.

Meðhöndlarinn hlustar eftir orkuflæði líkamans með skilningi og þekkingu á sérstökum púlsum. Þá er hlustað eftir jafnvægi innan orkurásanna sem endurspeglast í 12 púlsum sem teknir eru á úlnlið. Hlustað er eftir flæði á orku sem kallast Qi (lífsorka) og flæðir í ýmsu formi um líkamann en þó einkum í orkurásunum tólf.

Þegar líður á ævina dregur úr orku ýmissa líffæra. Það er svo undir lífsstíl hvers og eins komið hvaða líffæri eða orkurásir eiga undir högg að sækja. Einkenni eins og höfuðverkur, svitakóf, svefnörðugleikar, minnkandi eða óreglulegar blæðingar, rugl á egglosi, þunglyndi og kvíði fara að gera vart við sig, svo eitthvað sé nefnt. Ekki má heldur gleyma tilfinningalega þættinum s.s. álagi, kvíða, reiði, hræðslu og sorg ásamt öðrum sálrænum áföllum. Allt hefur sitt að segja í því hvernig konur upplifa breytingaskeiðið og til hvaða ráða þær grípa til að lina mismikil einkenni.

Markmið nálastungumeðferðar er að koma á jafnvægi milli andstæðra eiginleika Qi, yin og yang. Leitað er eftir heildarmynd þar sem eitt leiðir af öðru þannig að hægt verði að meðhöndla orsök ójafnvægis frekar en sjúkdómseinkennin sjálf. Þegar orsakir ójafnvægis eru fundnar eru viðeigandi punktar valdir í samræmi við lögmál sem stjórna hreyfingu og uppbyggingu Qi líkamans. Nálastungur örva mátt mannsins og svörun líkamans til endurnýjunar og viðhalds og hafa öldum saman verið notaðar sem fyrirbyggjandi meðferð. Þær mundu vissulega henta konum, sem hafa hug á að búa sig undir þetta skeið ævinnar og auka þannig líkurnar á því að það verði þeim léttbærara en ella.

Hómópatía

Hómópatía er heildræn meðferð, sem byrjar á ítarlegu viðtali, þar sem farið er yfir heilsufarssögu viðkomandi og öll einkenni; huglæg, tilfinningaleg og líkamleg, í þeim tilgangi að finna réttu remedíuna. Remedía er alþjóðlegt orð yfir efnin, sem hómópatar nota í meðferðinni og gefa til inntöku. Þær eru búnar til úr öllum mögulegum efnum úr jurta-, dýra og steinaríkinu, en efnin eru það mikið þynnt að réttara er að tala um hvata en efni. Remedían hvetur líkamann til að koma sér í jafnvægi. Margar remedíur geta linað einkenni kvenna á breytingaskeiðinu og þar sem engar tvær konur upplifa nákvæmlega sömu einkenni huglægt, tilfinningalega eða líkamlega, er meðferðin einstaklingsbundin. Remedíurnar eru líka til í mörgum styrkleikum, sem þarf að taka tillit til. og því er það aðeins á færi menntaðs hómópata að velja remedíu í samræmi við einkenni hverrar konu fyrir sig.

Hómópatían lítur svo á, að mestar líkur séu á vandamálum, þegar líkaminn er að glíma við eðlilegar breytingar, en skortir kraft til þess að keyra þær áfram. Þetta getur átt jafnt við um bráðasjúkdóma svo sem kvef og flensu, og flóknari þætti eins og breytingaskeiðið.

U.þ.b. 80% kvenna finna fyrir hitakófum og hefur hómópatían reynst þeim hjálpleg, en eftirfarandi dæmi sýna, hversu möguleikarnir geta verið margir, þegar við lítum bara á þetta eina atriði:

  • Aconite: hefur hitakóf á kvöldin ásamt kvíða og taugaspennu.
  • Amylenum Nitrosum: Hitakófin koma mjög skyndilega og óvænt, með stíflu í höfði, hita sérstaklega í andliti með miklum svita, kvíða og hjartslætti og komi tilfinningasveifla til getur hitakófið breiðst út um allan skrokkinn.
  • Belladonna: Hitakóf aðallega seinnipart dags, andlitið er sveitt, rautt og heitt og mikil svitaframleiðsla á kynfærasvæði.
  • Bryonia: Hitakóf, eins og volgu vatni sé hellt yfir allan líkamann.
  • Calcium Carb: Hitakófin færast uppá við með heitum svita á andliti og höndum og þeim fylgja kvíði, hjartsláttur og kuldaköst.
  • Cimicifuga: Hitakóf um hálfellefuleytið á kvöldin.
  • Graphites: Hitakóf aðallega í andlitinu sem er rautt og heitt.
  • Ignatia: Hitakóf aðallega að morgni til með þeirri tilfinningu að hún muni svitna sem verður ekki nema á einstaka stað en léttir á við mat. Kvíði fylgir hitakófum.
  • Kali Brom: Hitakóf eingöngu í andliti.
  • Kali Carb: Hitakóf aðallega á kvöldin og eftir erfiði, roðinn færist upp á við og konan svitnar á efri hluta líkamans á nóttu sem degi. Aukinn hjartsláttur fylgir þessu.
  • Kreosotum: Brunatilfinning um allan líkama og sviti en konunni léttir við að fara í volgt bað. Pirringur og eirðarleysi og konan þarf mikla hreyfingu á kvöldin og um nætur.
  • Lachesis: Skyndileg hitakóf og klístraður sviti um miðjan daginn og þessu fylgir hiti og roði í andliti og oft brennandi verkir í höfði. Hitakófunum fylgir stundum sviti og þá helst vegna andlegs álags en kynfærin svitna hinsvegar mikið.
  • Lycopodium: Hitakófin færast uppá við í andlitið og svitinn er klístraður, og ástandið er verst á kvöldin, í mannþröng eða í heitu herbergi. Svitinn lyktar illa.
  • Nux Vomica: Hitakófin koma meðan konan borðar, við mikla hreyfingu og ógleði fylgir gjarnan með. Hún svitnar mikið í andlitinu og á kynfærum á kvöldin og kvíði fylgir þessu.
  • Phosphorus: Hitakóf, eins og volgu vatni sé hellt yfir hana, svitinn er klístraður og mikill framan á líkamanum, maga og brjósti og færist upp á við í andlitið. Eykst við kvíða- og reiðitilfinningar.
  • Psorinum: Hitakóf, eins og volgu vatni sé hellt yfir hana, svitinn færist upp á við, andlitið er rjótt aðallega eftir kvöldmat. Hitakófin trufla svefninn.
  • Pulsatilla: Hitakóf aðallega í andliti um nætur og ef hún er í hita. Annars er hún kulsækin líkamlega og meyr tilfinningalega.
  • Sepia: Hitakóf sem færast upp líkamann. Mikill illa lyktandi sviti aðllega eftir hádegi og fram á nótt. Veikleiki fylgir í kjölfarið.
  • Sulphur: Hitakóf á brjósti sem færast upp í andlitið aðallega á kvöldin, um nætur og í mannþröng. Þreyta fylgir í kjölfarið.
  • Sulphur Acid: Hitakóf í andliti með klístruðum svita aðallega á kvöldin, um nætur og eftir mikla hreyfingu. Andlitið er rautt og svitnar sérstaklega ef konan borðar heitan mat.

Þegar möguleikarnir eru þetta margir og margvíslegir gefur auga leið að það skiptir meginmáli að val á remedíu sé nákvæmt.

Hómópatísk meðferð er  valmöguleiki fyrir þær konur, sem vilja upplifa breytingaskeiðið sem eðlilegan hluta lífs síns, en líka fyrir þær konur, sem ekki geta notað hormóna t.d. vegna krabbameins og lifrarsjúkdóma og einnig getur hún hjálpað þeim konum, sem nota hormóna, til að draga úr aukaverkunum.

Það getur verið vandlifað í þjóðfélagi, þar sem æskan er dýrkuð og öllum ráðum beitt til að halda sér unglegum sem lengst. Að eldast krefst breytinga, kjarks og þroska og eftir því sem skilningur okkar á þeim breytingum, sem framundan eru, er meiri, þeim mun  auðveldari verða breytingarnar sjálfar. Ef konan er við góða heilsu, þegar til breytingaskeiðsins kemur, er hún líklegri til þess að líta á breytingarnar sem jákvætt tækifæri, sem gæti verið upphafið að innihaldsríkum og skemmtilegum seinni hálfleik í lífi hennar.