Ayurveda svæðameðferð

Ayurveda svæðameðferð

eftir Sharon Stathis.
Þýtt og endursagt úr dönsku af Hallfríði M. Pálsdóttur. (Tekið af Touchpoint.dk)

page65_1

12. – 13. maí 2007 kom Sharon Stathis frá Ástralíu til að kenna okkur ayurveda svæðameðferð. Þetta var einstakt tækifæri, og ekki víst að hún komi aftur.

Sharon hefur kynnt sér hina indvesku alþýðulækningaraðferð ayurveda og þróað meðferðarform sem hún kallar ayurveda svæðameðferð. Þar fléttar hún ævafornum indverskum ayurveda hefðum inn í nútíma svæðameðferð.

Sem tákn fyrir ayurveda svæðameðferð hefur Sharon Stathis valið hindúaguðinn Ganesha, sem er guð visku og kennslu. Ganesha er einnig kallaður; sá sem fjarlægir hindranir.

Hvad er Ayurveda?
Ayurveda er indversk alþýðulækningaraðferð sem hefur verið stunduð í u.þ.b. 4.000 ár. Ayur þýðir líf og veda þýðir viska eða þekking, þannig að ayurveda þýðir þekking á lífinu eða lífsþekking. Hún er nátengd indverskri heimspeki og lífsskoðunum og myndar víðtækt kerfi sem af virðingu nýtir heilunarmátt náttúrunnar. Ayurveda leggur áherslu á þýðingu þess að halda ónæmiskerfinu og sjálfsheilandi kröftum í góðu standi með réttum lifnaðarháttum. Bæði í fyrirbyggjandi tilgangi og í meðhöndlun koma mismunandi nuddaðferðir og líkamsmeðhöndlanir við sögu, sem og notkun ilmkjarnaolía og jurtalyfja.

Padabhyanga
Fótanudd – kallað „padabhyanga” – skipar sérstakan sess í ayurveda hefðinni. Það er bæði notað  sem dagleg athöfn, til að fyrirbyggja ójafnvægi og sjúkdóma með því að viðhalda jafnvægishneigð (homeostasis) líkamans, og sem liður í meðhöndlun sjúkdóma.
Í gömlu indversku handriti stendur: Eins og slanga heldur sig frá örnum, halda sjúkdómar sig frá þeim sem nudda fætur sína frá hnjám að tám fyrir svefn! Framkvæmd padabhyanga getur samanstaðið af þremur höfuðþáttum: Marmapunktameðferð, handaaðferðum og ”Kasa-kúlu” meðhöndlun.

page65_2


Kasa-kúlan
Málmar eru oft notaðir í ayurveda meðhöndlun meðal annars með hinni svokölluðu Kasa-skál eða Kasa-kúlu. Hin upprunalega Kasa-skál er gerð úr kopar og tini, sem leiðir hita mjög vel. Hið rúnnaða yfirborð hitnar og smyrst í olíunni og notast sem nuddáhald. Kúlan hentar vel til venjulegs fótanudds með hringlaga strokum en hana er einnig gott að nota á ákveðin hátt á marampunktana.
Auk þess að vera mjög þægileg fyrir kúnnann, hjálpar Kasa-kúlan til við að draga úrgangsefni í gegnum húðina og jafnvægisstilla hitastigið í fætinum og líkamanum.

Sharon Stathis sýnir
Kasa-kúlutækni á fótum.

Marmapunktar
Í ayurveda svæðanuddi er lögð mikil áhersla á lífsorkuna (prana), þ.e. hefðbundnar orkubrautir og fínt net minni orkubrauta sem nefnast nadis sem prana flæðir um og nærir líkama og sál. Í ayurvedískri heimspeki er heilbrigði háð óheftu flæði lífsorkunnar um orkubrautirnar og orkustöðvarnar. Það eru fjórtán “æðri” nadis sem allar eiga upptök sín í mænurótarstöðinni við enda hryggsúlunnar og deila orkunni út í hinar orkustöðvarnar. Meðfram þessum orkubrautum eru minni orkustöðvar, alls 107 talsins, og nefnast þær marmapunktar. Marma þýðir viðkvæmt eða næmt svæði.

Tvö dæmi um marmapunkta
Gulpha Marma eru á fótunum. Þeir liggja eftir því sem við á, innan á  og utan á hælnum rétt undir ökklaliðnum.
Frá sjónarhorni svæðameðferðar svara þessi svæði til kynfæranna, mjaðmabeinanna, mjaðmaliðs og neðri hluta hryggsúlunnar.
í ayurvedafræðunum er álitið að Gulpha Marma hafi áhrif á æxlunargetuna. Punktarnir hafa áhrif á stoðkerfið með því að efla beinmyndun og bæta virkni liðanna, sérstaklega hreyfingar fótarins. Að auki hjálpar Gulpha Marma við að minnka umfram fitubirgðir líkamans.
page65_3
Kshipra Marma eru á höndum og fótum bæði að ofan og neðan. Punktarnir eru staðsettir yst í fitinni á milli fyrstu og annarrar táar (fingra). Fitin á milli hinna fingranna og tánna hefur stuðningsáhrif.
Í klassískri svæðameðferð svara þessi svæði til neðri hluta hnakka/hálss og efstahluta brjóstkassa. Þetta er mikilvægt sogæðasvæði, því hér rennur sogæðavökvinn í bláæðarnar.
Kshipra Marma stjórnar sogæða- og öndunarkerfunum og hefur mikilvæg áhrif á virkni hjartans.

page65_4
Þessi tvö dæmi sýna á áhrifaríkan hátt hvernig mörg þúsund ára hefðir koma heim og saman við nútíma skilning á svæðameðferð.
Marmapunkta meðhöndlunartækni: Aðferðin sem notuð er við meðhöndlun marmapunktanna eru núningshreyfingar, svæðið er nuddað eða strokið, með hröðum hringlaga hreyfingum. Nuddið er alltaf milt en er gert rösklega, þannig að blóðrás og orkuflæði aukist á svæðinu.
Það er hagur af því að nota krem eða olíu á punktinn. Ilmkjarnaolíur sem hæfa ástandi kúnnans er hægt að nota í meðhöndluninni.

  • Noti meðhöndlarinn hægri höndina nuddar hann réttsælis, en noti hann vinstri höndina nuddar hann rangsælis.
  • Hver punktur er meðhöndlaður í u.þ.b.  30 sekúntur í byrjun og síðan í lengri og lengri tíma í hvert skipti, þangað til hámarkinu, sem er 3 mínútur á hvern punkt, er náð.
  • Sömu punktar meðhöndlast á báðum fótum.

Hvernig er hægt að blanda saman ayurveda og svæðameðferð?
Um er að ræða tveggja daga námskeið þar sem lögð er áhersla á hagnýtar æfingar. Þar kennir Sharon Statis nýja aðferð til að flétta inn mismunandi nuddtækni á velþekktum fótasvæðum. Þetta er frábær tækni og um leið heillandi aðferð og áhrifarík opnun fyrir klassíska svæðanuddmeðferð. Aðferðina er einfalt að læra og þægilegt að flétta hana inn í daglega rútínu á stofunni.

Á námskeiðinu er kynnt stutt ágrip af sögu og heimspeki ayurveda, ýmis nuddtækni, notkun á Kasa-kúlum, notkun mismunandi ayurveda ilmkjarnaolía, ásamt staðsetningu og meðhöndlun á mikilvægum orkupunktum, svokölluðum marma–punktum.

„Á komandi árum trúi ég að notkun marmapunkta verði útbreiddari og þróaðri á Vesturlöndum, sérstaklega í þeim meðhöndlunarformum sem hafa orkuvinnu eins og svæðameðferð. Sem reyndir svæðanuddarar getum við aukið áhrif vinnu okkar með því að flétta inn þessa gömlu padabhyangatækni. Með því að sameina þessi tvö meðferðarform margfaldast áhrif beggja,“ segir Sharon Statis.

page65_5

Sharon Stathis
Sharon Stathis er menntuð hjúkrunarkona en hefur unnið sem svæðanuddari í mörg ár. Hún er ein af fyrstu svæðanuddurunum í Ástralíu. Sharon stofnaði fyrsta skólann með viðurkennda námskrá og er skólinn, sem er í Brisbane, nú sá stærsti í Ástralíu. Hún er þekkt og velmetin sem kennari í Ástralíu og fleiri löndum. Ayurveda svæðanudd hefur hún þróað í samvinnu við hinn þekkta indverska ayurvedalækni  Dr. Avinash Lele í Pune á Indlandi. Sharon heimsækir Indland reglulega þar sem hún vinnur að þróun ayurveda svæðanudds í samvinnu við Dr. Lele. Heimasíðan hennar er : www.ayurvedicreflexology.com

page65_6

Viðtal við Sharon Stathis fylgir hér á eftir.
Ayurveda svæðanudd – gamalt eða nýtt meðferðarform?
Á nútíma svæðameðferð rætur sínar að rekja til hinna þúsunda ára gömlu ayurvedísku hefða?
Viðtal við Sharon Statis eftir Dorte Krogsgaard og Peter Lund Frandsen, Hallfríður M Pálsdóttir þýddi með leyfi höfunda.
Dorte og Peter hittu Sharon á ferðum sínum til Ástralíu, þar sem viðtalið var tekið, og buðu henni í framhaldi af því að kenna aðferð sína í Danmörku. Sharon sýndi áhuga á því að koma til Íslands og kom hún um miðjan maí 2007 og hélt þetta eina námskeið hér. Dorte er hér með Sharon Stathis á myndinni.

Hvernig þróaðir þú þetta einstaka form svæðameðferðar?
Ég gekk út frá hinni klassísku svæðameðferð Ingham  sem ég hef stundað í mörg ár og kennt í skólanum mínum.
Fyrir mörgum árum rakst ég af tilviljun á teikningar í blaði, sem sýndu fætur þar sem örsmáir punktar voru merktir inn sem kallast marmapunktar. Fyrir utan að segja að þessir punktar væru mikilvægar orkustöðvar voru engar aðrar upplýsingar um þá í blaðinu. Forvitni mín var vakin en vegna anna sem kennari og skólastjóri var það ekki fyrr en árið 2001 sem ég hafði loksins tíma til þess að leita svara. Þið þekkið ef til vill orðtakið; þegar tíminn er kominn kemur kennarinn til þín. Það á við um mig.

Ferðalagið inn í veröld ayurvedískar aðferðarfræði hefur verið spennandi, stundum svekkjandi en einnig frábærlega gefandi.
Ayurveda hitti mig í hjartastað. Hún hefur hjálpað mér að skilja mörg sjónarhorn svæðameðferðar sem ég hafði aldrei áttað mig á. Að læra hinar ayurvedísku handa- og fótaaðferðir var eins og að koma heim, þetta var mér svo eðlilegt.
Í leit minni að vitneskju um ayurveda hef ég heimsótt Indland nokkrum sinnum og verið svo heppin að eiga mjög gott samstarf við marga viðurkenndustu ayurveda lækna landsins. Náminu lýkur aldrei og ég hlakka alltaf til að læra nýja hluti.

Meðal grundvallarfrumkraftanna í ayurveda er dosha, getur þú sagt frá þeim í stuttu máli?
Dosha (líkamsorkugerð) eru mikilvægur hluti í skilningi á ayurveda og mjög víðfeðm fræðikenning. Ég skal stytta þetta eins og hægt er.
Orðið dosha þýðir það sem breytir sér og táknar hin þrjú grundvallar lífsorkulögmál í líkamanum. Þær eru kallaðar vata, pitta og kapha. Jafnvægið á milli þessara þriggja líkamsorkugerða speglar líkamlegt, andlegt og tilfinningalegt ástand manneskju.
Venjulega er ein eða tvær dosha ríkjandi á ákveðnum tímapunkti og tjáir hver um sig lifandi lífsorku með ákveðnum karaktereinkennum:
Dosha
Mikilvægasta virkni
Mikilvægasta Staðsetning
Vata
Ber ábyrgð á hreyfingum sem eiga sér stað í líkamanum
Ristillinn
Pitta
Sér um hitaþróun
Smágirni og magi
Kapha
Ber ábyrgð á smurningu og samhengi.
Lungu (og öndunarvegur)

Í ayurveda er ójafnvægi í vata talið ein mikilvægasta sjúkdómsorsökin. Umframmagn af vata birtist m.a. í tilhneigingu til að fá harðlífi og hægðastíflur með endurupptöku úrgangsefna í ristilslímhimnu.

Er til aðferð til að meðhöndla vata á fætinum?
Hver hinna þriggja dosha skiptist í fimm undir-dosha sem hafa áhrif á ákveðna líkamsstarfsemi. Dr Randolph Stone sem þróaði pólunarmeðferðina [1] hefur tengt hinar fimm vata undir-dosha við hin fimm lóðréttu svæði á hvorum fæti. Nudd eftir þessum línum hjálpar til við að koma vata í jafnvægi og örva allt orkuflæðið.
Ein aðferðanna í ayurvedasvæðameðferð gengur út á að vinna með hin stöku lóðréttu svæði frá hæl að tá til að efla jafnvægi vata.

Hvað er mikilvægast í ayurveda svæðameðferð?

  • Padabhyanga, sérstök fótanuddaðferð
  • Marmapunktar
  • Kasa-kúlu nuddtækni
  • Ilmkjarnaolíur

Hvernig blandar maður saman hefðbundnu ayurveda svæðanuddi og klassískri Ingham aðferð?
Að örva orkustreymið er í fyrirrúmi í hinu indverska fótanuddi sem kallast padabhyanga. Að byrja meðhöndlum með padabhyanga er sérdeilis áhrifaríkur undirbúningur fyrir klassískt svæðanudd. Viðskiptavinir eru yfirleitt stressaðri nú en í upphafi svæðameðferðarinnar á Vesturlöndum á sjöunda áratugnum. Þess vegna er mikilvægt að upphaf meðferðarinnar sé áhrifaríkt og þægilegt. Þegar fæturnir eru heitir og kúnninn finnur líf í fótunum getur maður meðhöndlað einn eða fleiri marmapunkta sem manni þykja mikilvægir, áður en hið klassíska svæðanudd hefst. Maður getur einnig endað á marmapunktunum.

Hvernig er nuddaðferðin í padabhyanga?
Handaaðferðirnar sem notaðar eru í padabhyanga eru fyrst og fremst núningshreyfingar, eins og strokur og nudd.  Það er unnið rösklega með hröðum takti til að örva hina staðbundnu blóð- og orkurás.
Sérstaklega er hugað að liðum og beinaútvexti sem eru sérstök orkusvæði.
Lífsorkan (prana) streymir í átt að tánum og orkustraumur þessi styrkist við að strjúka fótinn frá hæl að tám.

Hvaða olíu notar þú í nuddinu?
Olían sem algengast er að nota í ayurveda nuddi, þar á meðal padabhyanga er sesamolía. Hún er gagnleg öllum þrem doshunum, er rík af fituleysanlegum vítamínum, inniheldur mörg steinefni og heldur sér vel.  Hún er kröftugt þráavarnarefni (andoxandi) og góð grunnolía sem hægt er að blanda í jurtum og öðrum efnum.
Ég vinn mikið með ilmkjarnaolíur á marmapunktana. Það er eitt áhrifaríkasta form ilmolíunudds og samtímis mjög kraftmikil marmapunktameðferð. Olíurnar eru notaðar beint á punktana, án almenns nudds á aðliggjandi svæði. Ég er ennþá undrandi yfir kraftinum sem liggur í því að blanda saman ayurveda og nútíma svæðameðferð og hlakka til að kenna fleirum þessa aðferð mína.

____________________________
[1] Pólun er heildræn heilbrigðismeðferð, byggð á skilningi á orkukerfi manneskjunnar og nútíma þekkingu á orku.Kenningar og aðferðir pólunarmeðferðar voru þróaðar af bandaríkjamanninum Dr. Randolph Stone f.1890 d.1981. Dr. Stone skilgreindi heilbrigði sem það ástand er gerir sálinni kleift að tjá sig hindrunarlaust gegnum huga, tilfinningu og líkama fólks. Jafnvægi á þessu þríþætta orkustreymi er grundvöllur fyrir heilbrigði og vellíðan en hindrun á streymi kemur fram sem líkamlegt eða andlegt ójafnvægi eða sjúkdómur.
Í pólunarmeðferð er því leitast við að koma á hindrunarlausu orkuflæði um líkamann og losa um orkustíflur. Það er gert með mismunandi djúpri snertingu á þeim orkurásum og svæðum líkamans sem Dr. Stone skilgreindi og kortlagði, samkvæmt kenningum sínum. Meðferðartími miðast yfirleitt við 45 til 60 mín. Meðferðin er unnin á bekk. Sá er meðferð þiggur þarf ekki að afklæðast en vera í þægilegum, helst bómullarfatnaði næst sér.
Heimild: Ljósheimar.is